98% ánægð með þjónustu læknastofa
Mikil og nær einróma ánægja er meðal sjúklinga með þá þjónustu sem þeir fengu á læknastofum sjálfstætt starfandi sérfræðilækna á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt nýrri þjónustukönnun sem gerð var fyrir Læknafélag Reykjavíkur. Raunar eru niðurstöðurnar svo afgerandi að 98% svarenda sögðust vera mjög eða frekar ánægð með þá þjónustu sem þeim var veitt í heimsókninni, þar af sögðust 83,7% vera mjög ánægð. Niðurstöðurnar eru birtar í nýjasta hefti Læknablaðsins. Sex sérfræðilæknar og einn lífverkfræðingur og tölvunarfræðingur unnu að gerð könnunarinnar sem gerð var 2. desember til 9. janúar sl. meðal 1.595 sjúklinga sem komu á fjórar stórar starfsstöðvar sérgreinalækna; Röntgen Domus, Orkuhúsið, Læknastöðina í Glæsibæ og Læknasetrið í Mjódd.
16.03.2020