Úthlutunarreglur FOSL

 úthlutunarreglur

Fjölskyldu- og styrktarsjóður lækna (FOSL)

FOSL veitir félagsmönnum fjárhagsaðstoð í veikinda- og slysatilvikum, styður og eflir félagsmenn vegna endurhæfingar eftir veikindi auk þess að efla félagsmenn í forvörnum sem varða heilsufar og heilbrigði.

Réttur sjóðfélaga til úthlutunar úr sjóðnum er háður því að greitt hafi verið styrktarsjóðsframlag vegna sjóðfélaga í samtals  6 mánuði og þar af 3 mánuði samfellt áður en atvik, sem veitir rétt til styrks úr sjóðnum, átti sér stað. Sjóðstjórn getur vikið frá þessu skilyrði við sérstakar aðstæður sjóðfélaga.

 

Úthlutunarreglur

Sjóðsstjórn setur almennar úthlutunarreglur um styrkveitingar úr FOSL. Úthlutunarreglur skulu endurskoðaðar reglulega og eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti. Úthlutunarreglur FOSL skulu birtar á innri og ytri vef heimasíðu Læknafélags Íslands og reglulega kynntar sjóðfélögum.

 

Styrkir

Fæðingarstyrkur: læknir sem eignast barn, tekur barn til ættleiðingar eða í varanlegt fóstur getur sótt um fæðingarstyrk að fjárhæð kr. 520.000. Ef foreldrar barns eru báðir læknar greiðist vegna hvers barns öðru foreldri fullur styrkur en hinu foreldrinu hálfur styrkur. Ef um fjölbura er að ræða hækkar fjárhæðin um 50% fyrir hvert barn. Eingöngu læknar sem starfa og fá greidd laun á Íslandi eiga rétt á að fá greiddan fæðingarstyrk úr sjóðnum. 

Veikindastyrkur:  nemur 80% af grunni inngreiðslna sjóðfélaga í sjóðinn síðustu 12 mánuði áður en greiðslur féllu niður þó að hámarki kr. 1.200.000,- á mánuði í 3 mániði.  Hvert samfellt greiðslutímabil er að jafnaði 3 mánuðir á hverju 12 mánaða tímabili.  Sá sem hefur fullnýtt þann rétt öðlast hann að nýju þegar greitt hefur verið fyrir hann til sjóðsins í 3 mánuði. Sjóðfélagi sem er sjálfstætt starfandi hefur rétt til greiðslu veikindastyrks sem um launþega væri að ræða.  Biðtími til veikindastyrks hjá  sjálfstætt starfandi sjóðfélaga vegna eigin veikinda skal vera að lágmarki 6 mánuðir.

Styrkur vegna langvarandi veikinda ættingja: Nú hefur læknir farið í launalaust leyfi vegna langvarandi veikinda ættingja og greiðir FOSL þá styrk sem nemur 80% af grunni inngreiðslna sjóðfélaga í sjóðinn síðustu 12 mánuði áður en greiðslur féllu niður þó að hámarki kr. 1.200.000,- á mánuði í 3 mánuði.  Hvert samfellt greiðslutímabil er að jafnaði 3 mánuðir á hverju 12 mánaða tímabili.  Sá sem hefur fullnýtt þann rétt öðlast hann að nýju þegar greitt hefur verið fyrir hann til sjóðsins í 3 mánuði. Sjóðfélagi sem er sjálfstætt starfandi hefur rétt til greiðslu veikindastyrks sem um launþega væri að ræða.  Biðtími til veikindastyrks hjá  sjálfstætt starfandi sjóðfélaga vegna eigin veikinda skal vera að lágmarki 6 mánuðir.

Eingreiðslustyrkur: heimilt er að veita sjóðfélaga að jafnaði einu sinni á ári styrk úr sjóðnum með eingreiðslu allt að  kr. 1.000.000,- vegna sérstakra aðstæðna sem hafa í för með sér launamissi eða veruleg sérstök fjárútlát sjóðfélaga. Sýna þarf fram á tekjutap eða reikninga. Reikningar þurfa að vera að lágmarki kr. 200.000,- Eingreiðslustyrk má þó aldrei veita oftar en einu sinni á ári í þrjú ár samfellt.

Styrkur vegna sálfræðimeðferðar: ef sálfræðikostnaður fer yfir kr.150.000,- á hverju 12 mánaða tímabili er greiddur kr. 150.000,- styrkur.

Styrkur vegna tækjakaupa: greiddur er styrkur vegna tækjakaupa t.d. heyrnartækja.  Greiddur er helmingur útlagðs kostnaðar þó að hámarki kr. 300.000,-. Reikningar vegna tækjakaupa þurfa að vera að lágmarki kr. 200.000,-.

Styrkur vegna glasafrjóvgunar:  hámarksstyrkur vegna glasafrjóvgunar er kr. 1.000.000.  Þegar félagsmaður hefur fengið hámarksgreiðslu kr. 1.000.000 vegna glasafrjóvgunar endurnýjast rétturinn ekki.

Útfararstyrkur: greiddur er útfararstyrkur að hámarki kr. 750.000,- vegna fráfalls greiðandi sjóðfélaga. Réttindi sjóðsfélaga haldast innan 5 ára frá starfslokum. Sýna þarf fram á útfararkostnað þegar sótt er um styrkinn.

Endurhæfing á heilsustofnun: greiddur er styrkur að hámarki kr. 250.000,- á þriggja ára fresti vegna dvalar til endurhæfingar að læknisráði á Íslandi. Heimilt er þó að nýta styrkinn til endurhæfingar á viðurkenndri stofnun erlendis en umsókn um slíka endurhæfingu þarf ávalt að fara fyrir stjórn sjóðsins. 

Styrkur vegna áfengis- og vímuefnameðferðar: Heimilt er að greiða styrk í allt að 3 mánuði vegna sjúkdóms sem stafar af ofneyslu áfengis eða vímuefna enda fái sjóðfélagi ekki greidd laun frá launagreiðanda sínum meðan á meðferð stendur. Fjárhæð styrkjar er hin sama og vegna veikinda enda sé sýnt fram á að sjóðfélagi sé ekki að njóta veikindalauna í meðferðinni. 

 

Umsóknir og gögn

Umsóknir: Sækja þarf um styrki til sjóðsins á rafrænu formi á mínum síðum á vefsvæði Læknafélagsins www.lis.is

Umsóknir styrkja eru afgreiddar mánaðarlega. Umsóknum ásamt viðeigandi gögnum skal skila inn í síðasta lagi 20. dag mánaðar fyrir næstu úthlutun. Að jafnaði er greitt út 1. dag mánaðar eða næsta virka dag á eftir. Lokadagur til að sækja um og skila gögnum vegna umsókna sem miðast við almanaksár er til og með 10.desember.

Gögn:  Til að sjóðsfélagi geti fengið greitt úr sjóðnum þarf hann að skila inn eftirfarandi gögnum:

  • Fyrir fæðingastyrk: Umsókn um fæðingarstyrk, fæðingarvottorð barns.
  • Fyrir veikindastyrk: Umsókn um veikindastyrk, læknisvottorð, vottorð um tæmingu veikindaréttar og skattkort (valkvætt).
  • Styrkur vegna langvarandi veikinda ættingja: Umsókn um styrk, læknisvottorð aðstandanda, vottorð um launalaust leyfi og skattkort (valkvætt).
  • Fyrir útfararstyrk: Umsókn um útfararstyrk, dánarvottorð, greiðslukvittanir v. útfarar.  Styrkurinn er greiddur þeim sem útförina annast.
  • Eingreiðslustyrkur og styrkur v. endurhæfingar á heilsustofnun: Umsókn um styrk. Sundurliðaður reikningur, með nafni umsækjanda og/eða kennitölu. Á reikningunum þarf að vera áritun/stimpill/merki þess sem gefur reikningana út með upplýsingum um nafn, starfsheiti, kennitölu og heimilisfang eða símanúmer. Fjöldi skipta og dagsetningar meðferða eða kaupa á vöru eða þjónustu skulu koma fram á reikningunum.
  • Heilsueflingarstyrkur: Aðalfundur Læknafélags Íslands í október 2017 samþykkti ályktun sem heimilar stjórn FOSL að greiða sjóðsfélögum heilsueflingarstyrk ef peningalegar eignir sjóðsins eru hærri en sem nemur þrisvar sinnum árlegum rekstrargjöldum sjóðsins. Samkvæmt ályktuninni skal heilsueflingastyrkurinn til hvers sjóðsfélaga taka mið af  innborgunum af launum hans í sjóðinn árið á undan greiðslu styrksins. Heilsueflingastyrkur FOSL skal þó aldrei nema lægri fjárhæð en 5.000 kr.

 

Staðgreiðsla af styrkjum: Greiðslur úr FOSL eru almennt staðgreiðsluskyldir og er staðgreiðsla dregin af við afgreiðslu styrks. 

 

Fyrning umsókna: Réttur til greiðslna úr sjóðnum fyrnist sé ekki sótt um þær innan 12 mánaða frá því að til útgjalda var stofnað eða tekjutap varð.

 

 Úthlutunarreglur þessar gilda frá 1.1.2020