Jafnréttisstefna LÍ

Jafnréttisstefna Læknafélags Íslands

Inngangsorð
Jafnrétti er hornsteinn lýðræðis og réttláts samfélags þar sem víðsýni og virðing er í hávegum höfð. Læknafélag Íslands (LÍ) er opið öllum læknum og það starfar fyrir alla félagsmenn. Innan LÍ skal ríkja jafnrétti og gagnkvæm virðing meðal félagsmanna og skulu allir njóta sanngirni og jafnra tækifæra. Hjá LÍ er lögð er áhersla á að skapa starfsumhverfi þar sem samskipti og vinnubrögð einkennast af virðingu, heilindum, sanngirni og jafnrétti.

Þessi stefna sýnir áherslur LÍ í jafnréttismálum.  Jafnréttisstefnan byggir á 18.-22. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.  Markmið LÍ með að samþykkja þessa stefnu er að tryggja jafna stöðu og jöfn tækifæri félagsmanna LÍ óháð kyni, aldri, trú, þjóðerni, kynþætti, fötlun, kynhneigð, stjórnmálaskoðunum og öðrum mismununararástæðum og þannig koma í veg fyrir einelti, mismunun eða áreitni.

Markmið
Markmið LÍ er að tryggja að innan LÍ ríki viðhorf sem eru laus við fordóma og mismunun gagnvart félagsmönnum og starfsfólki. LÍ vill vinna markvist að sem jafnastri kynjasamsetningu í sambærilegum stöðum, nefndum og ráðum, sem og að stuðla að sem jafnastri kynjaskiptingu meðal félagsmanna og á vinnustöðum þeirra.  Einelti, kynbundin áreitni kynferðislegt ofbeldi sem og annað ofbeldi  er ekki og verður aldrei  liðið innan LÍ.

 

I. Jöfn staða lækna á vinnumarkaði

18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Vinnumarkaður.

Atvinnurekendur og stéttarfélög skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Atvinnurekendur skulu sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Sérstök áhersla skal lögð á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum.

 • LÍ stefnir að sem jafnastri kynjasamsetningu í sambærilegum stöðum, nefndum og ráðum.
 • LÍ styður jafnrétti allra til læknanáms. Í vill stuðla að jöfnum námstækifærum allra án tillits til kyns innan hverrar sérgreinar.
 • LÍ leggur áherslu á að á vinnustöðum lækna sé tryggð jöfn staða og jöfn tækifæri óháð kyni, aldri, þjóðerni, kynþætti, fötlun, kynhneigð, stjórnmálaskoðunum og öðrum mismununarástæðum.
 • LÍ vill að allir læknar séu virtir og metnir að verðleikum á eigin forsendum og að hæfileikar og mannauður nýtist sem best.
 • LÍ vill  að störf lækna séu metin út frá frumkröfum til starfsréttinda s.s. náms- og þjálfunartíma og  kröfum um  símenntun,  svo og ábyrgðar, inntaks og eðlis læknisstarfsins.
 • LÍ vill að innan læknastéttarinnar ríki viðhorf án  fordóma og mismununar.
 • LÍ líður ekki  einelti, kynbundna  áreitni, kynferðislegt ofbeldi  og annað ofbeldi hvorki innan stéttarinnar né utan. LÍ ætlar að halda kynjahlutföllum í nefndum, ráðum, starfshópum og stjórnum á vegum félagsins sem jöfnustum.

- LÍ  mun árlega taka saman stöðumat á stöðu lækna á vinnumarkaði.


II. Sömu laun fyrir sömu vinnu

19. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla
Launajafnrétti
Konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun. Starfsmönnum skal ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo.

 • LÍ vill og beitir sér fyrir að stofnanir og fyrirtæki greiði læknum sömu laun fyrir sömu vinnu.
 • LÍ vill að ekki sé hægt að greina kynbundinn mun á launum eða kjörum starfsmanna í sambærilegum störfum.
 • LÍ vill að laun endurspegli vinnuframlag, hæfni, menntun og færni læknis sem og innihalds starfsins og þá ábyrgð sem því fylgir.
 • LÍ vill og beitir sér fyrir að stofnanir og fyrirtæki sem læknar vinna hjá taki launaviðtöl árlega.

- LÍ mun skoða með reglubundnum úttektum á jafnlaunavottun stofnana og fyrirtækja þar sem læknar starfa  greina hvort fyrir hendi sé kynbundinn mun eða önnur  mismunun á launum eða kjörum lækna í sambærilegum störfum með því að LÍ gerir reglulega kjarakönnun meðal félagsmanna.


III. Starfsfólk, ráðningar og mikilvægi menntunar

20.  gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun.
Starf sem laust er til umsóknar skal standa opið jafnt konum og körlum.

Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að konur og karla njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings fyrir önnur störf.

 • LÍ vill að ávallt sé litið til jafnréttissjónarmiða við ráðningar auk þess sem stefnt er að því að hafa hlutföll kynja sem jöfnust í sambærilegum störfum.
 • LÍ vill styrkja stöðu lækna af erlendum uppruna á vinnumarkaði og tryggja að menntun þeirra og reynsla verði viðurkennd. LÍ vill að læknar af erlendum uppruna fái tækifæri og stuðning til menntunar í íslensku.
 • LÍ vill að framganga í starfi og stöðuhækkanir séu opin fyrir alla lækna óháð kyni, aldri, trú, þjóðerni, kynþætti, fötlun, kynhneigð, stjórnmálaskoðunum og öðrum mismununarástæðum.
 • LÍ  vill hvetja alla lækna til að ástunda fjölbreytt störf innan læknavísinda og sækja um styrki, kennslustöður, leiðtogastöður og stjórnunarstöður.

- Læknafélagið mun skoða tölfræði reglulega yfir kynjasamsetningu, þjóðerni og aldursdreifingu lækna.

 

IV. Jöfn ábyrgð á fjölskyldu og heimili

21. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs.
Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Ráðstafanir þær skulu m.a. miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsmanna og þarfa atvinnulífs, þar með talið að starfsmönnum sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna.

 • LÍ vill að læknar geti samræmt starf og fjölskyldulíf.
 • LÍ vill að samningar á vinnumarkaði kveði á um styttri og sveigjanlegri vinnutíma sem geri læknum kleift að samræma einkalíf og vinnu.
 • LÍ vill að við skipulag læknanámsins verði tekið tillit til persónulegra aðstæðna, heilsufars eða fjölskyldu.
 • LÍ vill að vinnuveitandi sjái til þess að læknar geti farið í fæðingarorlof. Tryggt skal að læknar hafi samfellda ráðningu fram yfir fæðingarorlof.
 • LÍ vill að vinnuveitandi tryggi barnshafandi læknum gott starfsumhverfi og tillit sé tekið til öryggis og þarfa vegna meðgöngu og brjóstagjafar.
 • LÍ  vill að læknar hafi möguleika á hlutastarfi í kjölfar fæðingarorlofs. 

- LÍ mun gera könnun á meðal lækna um hvernig gangi að samræma þarfir fjölskyldu og vinnu.

 

V. Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni.

22. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni
Atvinnurekendur og yfirmenn stofnana og félagasamtaka skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni

eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, stofnun, í félagsstarfi eða skólum. Ef yfirmaður er kærður vegna ætlaðs kynbundins ofbeldis, ætlaðrar kynbundinnar áreitni eða ætlaðrar kynferðislegrar áreitni verður hann vanhæfur til að taka ákvarðanir í tengslum við starfsskilyrði kæranda á meðan meðferð málsins stendur yfir og skal þá næsti yfirmaður taka slíkar ákvarðanir.

 • LÍ vill að til staðar séu skýrar skriflegar verklagsreglur og verkferlar hjá stofnunum og fyrirtækjum sem læknar starfa hjá ef upp koma mál er varða einelti, kynbundið ofbeldi, annað ofbeldi og áreitni.
 • LÍ vill að stofnanir hafi markvissa fræðslu fyrir starfsfólk  um það hvert skal leita ef upp koma mál er varða einelti, kynbundið ofbeldi og áreitni.
 • LÍ vill að stofnanir og fyrirtæki sem læknar vinna hjá bjóði þolendum viðeigandi aðstoð, t.d. sálfræði- og lögfræðiaðstoð.

- LÍ skipar samskipta- og jafnréttisnefnd sem leiðbeinir læknum um úrræði ef félagsmaður vill leita ráða vegna eineltis, kynbundins ofbeldis og áreitni.

- LÍ  gerir reglulega könnun meðal félagsmanna LÍ varðandi einelti, kynbundið ofbeldi, annað  ofbeldi, áreitni og mismunun.

 

Stöðumat
Skýrsla um stöðu jafnréttismála skal gerð árlega og birt í Skýrslu stjórnar til aðalfundar LÍ sem birt er á heimasíðu LÍ fyrir hvern aðalfund LÍ. Efnisþættir skýrslunnar verða samkvæmt þáttum sem tilteknir eru í römmum hér að framan.

Endurskoðun
Jafnréttisstefna LÍ er lifandi plagg. Stjórn LÍ skal fylgjast með  breytingum  á lagaumhverfi jafnréttis- og mannréttindamála og endurskoða stefnuna til samræmis og eigi sjaldnar en  á þriggja ára fresti. Jafnréttisstefna samþykkt af stjórn LÍ skal ætíð kynna á næsta aðalfundi LÍ eftir að stjórn hefur samþykkt nýja eða endurskoðaða stefnu.

Jafnréttisstefna LÍ