Orðanefnd LÍ

Um Orðanefnd lækna

Orðanefnd lækna var formlega stofnuð árið 1983, en þá hafði útgáfa íðorða í læknisfræði verið í undirbúningi um nokkurra ára skeið. Í fyrstu nefndinni sátu læknarnir Örn Bjarnason, formaður, Magnús Jóhannsson og Bjarni Þjóðleifsson. Ákveðið var að gefa út íslenskt íðorðasafn lækna sem grundvallað væri á enskum orðaforða. Til hliðsjónar voru hafðar helstu læknisfræðiorðabækurnar, s.s. Blakiston´s, Stedman´s og Dorland´s. Hafist var handa um söfnun orðanna en hægt gekk í fyrstu uns ráðinn var málfræðingur í hlutastarf, Magnús Snædal, til að orðtaka og tölvuskrá orðaforðann. Íðorðin voru síðan gefin út í stafrófsröð í litlum heftum (samtals 556 bls.) eða svonefndum „stafköflum“ (A, B, C, D, E, FG, HIJK o.s.frv.). Tengill á Íðorðasafn lækna https://idordabanki.arnastofnun.is/leit//ordabok/LAEKN.

Fleiri læknar tóku sæti í nefndinni og lögðu fram mikla vinnu við yfirlestur íðorðaskráa á reglulegum, vikulegum fundum nefndarinnar á þessum árum. Þeir voru Eyjólfur Þ. Haraldsson, Guðjón S. Jóhannesson, Helgi Þ. Valdimarsson og Jóhann Heiðar Jóhannsson. Læknafélögin tryggðu kostnað við laun starfsmannsins, sem fékk, með formlegum samningi, aðsetur og aðstöðu hjá Íslenskri málstöð. Stofnaður var Orðabókarsjóður læknafélaganna, með framlögum frá ýmsum styrktaraðilum, m.a. Búnaðarbanka Íslands, og stóð hann að mestu undir kostnaði af tölvuvinnslu.

Orðanefnd lækna var síðan formlega endurvakin í mars 2012 og í hana skipaðir Eyjólfur Þ. Haraldsson. Jóhann Heiðar Jóhannsson og Magnús Jóhannsson. Nefndin hefur haldið mánaðarlega starfsfundi og unnið af fullum krafti við endurskoðun á íðorðasafni lækna undir leiðsögn Ágústu Þorbergsdóttur, orðabankastjóra. 

Breytingar hafa orðið á mönnun orðanefndarinnar. Á árinu 2018 bættust Runólfur Pálsson, lyflæknir, og Reynir Tómas Geirsson, fæðingar- og kvensjúkdómalæknir, í hóp nefndarmanna. Snemma árs 2021 óskaði Eyjólfur Þ. Haraldsson svo eftir lausn frá nefndarstarfinu og var þá Gerður Aagot Árnadóttir, heilsugæslulæknir, skipuð í hans stað. Þegar þetta er skrifað hafa tæplega 7000 færslur verið yfirfarnar og lagfærðar. Um 1600 nýjum færslum hefur á sama tíma verið bætt við í safnið.