Reglugerð Fræðslustofnunar

Eftir breytingar sem
gerðar voru á aðalfundi LÍ
20.– 21. október 2011 og
29.
og 30. október 2021

Reglugerð
fyrir
Fræðslustofnun lækna

I. KAFLI

HEITI, HLUTVERK OG STOFNFÉ

1. gr.

Fræðslustofnun lækna er stofnun í eigu Læknafélags Íslands og lýtur sérstakri stjórn.
Heimili og varnarþing stofnunarinnar er á starfstöð Læknafélags Íslands.

2. gr.

Hlutverk Fræðslustofnunar lækna er að sjá um rekstur fræðslustarfsemi heildarsamtaka lækna og styrkja símenntun og fræðslustarf lækna. Fræðslustofnun lækna er heimilt að veita styrki til ákveðinna rannsóknarverkefna á sviði símenntunar.

3. gr.

Stofnfé Fræðslustofnunar lækna samanstendur af eignum Námssjóðs lækna, sem lagður var niður í árslok 1996, ásamt með eignum að undanskilinni fasteign frá Sjálfseignastofnun Domus Medica, sem lögð var niður 27. desember 1996.

II. KAFLI 

STJÓRN, TEKJUR, STYRKIR OG REKSTUR

4. gr.

Stjórn Læknafélags Íslands skipar níu lækna í stjórn Fræðslustofnunar lækna til þriggja ára í senn, formann og átta meðstjórnendur, sem skipta með sér verkum. Hvert aðildarfélag LÍ tilnefnir einn fulltrúa til setu í stjórninni. Aðrir skulu tilnefndir af stjórn LÍ og horft m.a. til sérgreinafélaga og svæðafélaga lækna við val þeirra. Að jafnaði skal miða við að a.m.k. einn nýr maður skuli skipaður í stjórn stofnunarinnar í upphafi hvers kjörtímabils.

Stjórnarsamþykkt er lögleg ef a.m.k. fimm stjórnarmanna greiða henni atkvæði.

Stjórnarfundir skulu haldnir svo oft sem þurfa þykir.

Rita skal fundargerðir funda stjórnar stofnunarinnar.

5.gr.

Tekjur stofnunarinnar eru:

a) Vextir og verðbætur af innistæðum stofnunarinnar.
b) Gjafir og önnur framlög.
c) Aðrar tekjur.

6.gr.

Stjórn stofnunarinnar hefur umsjón með sjóðum hennar og mælir fyrir um ávöxtun á þeim.

Skal ávöxtun vera í ríkisskuldabréfum, skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs eða bankastofnana, í bönkum og sparisjóðum, í skuldabréfum fjárfestingastofnana, hlutdeildar­skír­tein­um sjóða verðbréfafyrirtækja eða annarra lánastofnana enda starfi þær samkvæmt sérstökum lög­um eða séu undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins, í skuldabréfum fyrirtækja með trausta eiginfjárstöðu og góða rekstrarafkomu eða í skráðum innlendum og erlendum hlutabréfum.

7.gr.

Stjórn stofnunarinnar setur sér starfsreglur um úthlutun styrkja í samræmi við ákvæði 2.gr.

8.gr.

Læknafélag Íslands annast almenna afgreiðslu fyrir Fræðslustofnun lækna með samningi við stjórn stofnunarinnar. Stofnuninni er heimilt sér að kostnaðarlausu að nota fundaraðstöðu í eigu læknafélaganna.

9.gr.

Skýrsla stjórnar stofnunarinnar fyrir liðið starfsár og fjárhagsáætlun næsta starfsárs skal tekin fyrir á aðalfundi Læknafélags Íslands.

Fræðslustofnun lækna skal að öllu jöfnu rekin með þeim hætti að upphaflegt stofnfé hennar, samanber 3. gr., framreiknað skv. vísitölu neysluverðs, verði ekki skert.

III. KAFLI

REIKNINGAR OG ENDURSKOÐUN

10.gr.

Reikningsár stofnunarinnar er almanaksárið.

Kjörnir skoðunarmenn og löggiltir endurskoðendur Læknafélags Íslands endurskoða reikninga Fræðslustofnunar lækna, sem skulu lagðir fram til afgreiðslu á aðalfundi Læknafélags Íslands.

IV. KAFLI

ALMENN ÁKVÆÐI

11.gr.

Reglugerð þessari verður aðeins breytt á aðalfundi Læknafélags Íslands og ræður afl atkvæða úrslitum.

12.gr.

Tillaga um að leggja Fræðslustofnun lækna niður þarf samþykki 2/3 kjörinna fulltrúa á aðalfundi Læknafélags Íslands. Liggi fyrir lögmæt ákvörðun um að leggja stofnunina niður renna allar eignir hennar til Læknafélags Íslands.

 

---------------------

Fræðslustofnun lækna var stofnuð með reglugerð á aðalfundi LÍ 26. og 27. september 1997 í Borgarnesi. Eignir Námssjóðs lækna voru stofnfé stofnunarinnar ásamt með fjármunum frá Sjálfseignarstofnun Domus Medica. Breyting var gerð á reglugerð Fræðslustofnunar lækna frá 1997 á sameiginlegum fundi stjórna LÍ og LR 12. desember 2000 á grundvelli þágildandi reglugerðar stofnunarinnar. Breytingar voru gerðar á reglugerðinni á aðalfundi LÍ 20. – 21. október 2011.