Alþjóðafélag lækna (WMA)

Fyrsti vísirinn að alþjóðasamtökum lækna varð til árið 1926 með samtökum sem 23 þjóðir stóðu að. Þessi samtök lögðust af þegar síðari heimsstyrjöldin braust út en voru endurvakin  árið 1947 með þátttöku 27 þjóða þar á meðal Íslands (Læknafélagið). Í dag eiga 112 þjóðir aðild að Alþjóðasamtökum lækna(WMA).  Hlutverk samtakanna er fyrst og fremst að fjalla um siðfræðileg málefni, um siðareglur í starfi og rannsóknum og um mannréttindi. Læknafélagið hefur verið virkur aðili að WMA frá síðustu aldamótum þegar Jón Snædal öldrunarlæknir tók sæti í stjórn samtakanna. Hann átti sæti í stjórninni frá 2001-2005, var forseti samtakanna árið 2007 og stjórnarmaður aftur árin 2011-2015.

WMA hefur haft mikla þýðingu fyrir siðfræðileg viðmið lækna og víða mótað stefnu löggjafa. Helsinki yfirlýsingin er eitt dæmi um vinnu samtakanna á sviði vísindasiðfræði og gætir hennar til að mynda í lögum og reglum fjölmargra þjóða.

Aðsetur WMA var upphaflega í New York.  Sú staðsetning þótti henta afskaplega vel þar sem skrifstofur Sameinuðu þjóðanna eru þar í borg og stofnendum WMA þótti mikilvægt að halda nánu sambandi við þá stofnun.  Árið 1975 fluttist skrifstofa WMA til Ferney-Voltaire í Frakklandi.  Ástæður flutninganna voru m.a. efnahagslegar en einnig þótti heppilegt að vera í nábýli við alþjóðastofnanir sem staðsettar eru í Genf og má þar meðal annars telja Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) og Alþjóðavinnumálastofnunina (ILO).

 

Heimasíða WMA