Yfir 3.000 látist af Covid-19 á Norðurlöndunum

Rétt tæplega 3.100 hafa látist af Covid-19 á Norðurlöndunum, það er í Finnlandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Íslandi. Þetta má lesa í nýuppfærðum tölum finnska ríkismiðilsins Yle.  

Miðillinn segir frá því að kúrfa veikinda sé svipuð í Finnlandi, Noregi og Íslandi. Hann sýnir hvernig Svíar skera sig úr þegar kemur að smituðum. Þar hafa nærri 2.280 látið lífið. Borin eru saman gögn um dauðsföll, fjölda prófa, þörf fyrir gjörgæslu, aðgerðir stjórnvalda og aðgengi að löndunum. 

Sagt er frá því að Íslandi hafi í upphafi faraldursins orðið fyrir meiri útbreiðslu smits en önnur Norðurlönd, en hafi fljótt náð stjórn á atburðarásinni. Landið hafi staðið að einum umfangsmestu prófunum í heiminum miðað við höfðatölu. 

Áhugavert er að sjá að bæði Finnar og Svíar hafa prófað margfallt færri hlutfallslega en gert hefur verið hér á landi. Íslands sker sig úr með 104 próf á hverja hundrað þúsund íbúa á meðan Finnar hafa prófað 8 á hverja hundrað þúsund, Svíar 7, Danir 13 og Norðmenn 24. 

Þetta sést á staðfestum tilfellum. Í Svíþjóð eru þau rétt undir 11 þúsund og flest. Hátt í 6.500 hafa greinst í Noregi og Danmörku, næri 3.100 í Finnlandi og rétt yfir 1.700 hér á landi.