Fréttir

Læknar standa vaktina

Læknar standa vaktina

Í því umróti sem skekur íslenskt heilbrigðiskerfi þetta sumarið með skorti á hjúkrunarfræðingum og uppsögnum ljósmæðra og undirmönnun ýmissa annarra heilbrigðistétta standa læknar vaktina enn. Læknisfræði er grunnstoð heilbrigðisþjónustunnar sem ekki má bresta þó annað hrökkvi undan álagi og upplausn skapist í heilbrigðiskerfinu. Engar reglur gilda um lágmarksmönnun lækna utan lögbundinnar neyðarmönnunar ef til verkfalls gæti komið. Svo undarlega sem það kann að hljóma reyndist í því eina verkfalli sem læknar neyddust til að ganga í gegnum á 100 ára sögu Læknafélags Íslands mönnun heldur skána á sumum deildum helstu heilbrigðisstofnana þegar uppfyllt voru ákvæði neyðarmönnunarlista. Undirmönnun lækna og mikið álag einkennir enn starfsaðstæður lækna á sumum sviðum og huga þarf að stöðugri endurnýjun og endurmati á mönnunarþörf m.t.t. breytinga í samfélagsgerð, mannfjölda og tækniframfara.
05.07.2018
Yfirlýsing frá LÍ:  Laun lækna og launaþróun 2007 - 2018

Yfirlýsing frá LÍ: Laun lækna og launaþróun 2007 - 2018

Í Morgunblaðinu í dag, 3. júlí 2018, er gefið í skyn að heildarlaun lækna eftir 6 ára nám séu um 1.500.000 kr. Þetta er rangt og er harmað að reynt sé blanda læknum inn í yfirstandandi launadeilur annarra heilbrigðisstétta. Hið rétta er að dagvinnulaun lækna eftir 6 ára nám eru skv. kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra og Læknafélags Íslands (LÍ) kr. 479.000 á mánuði, eins og sjá má í meðfylgjandi launatöflu kandidata og almennra lækna. Að kandídatsári loknu fara læknar í launaflokk 200. Langflestir almennir læknar eru í launaflokki 200 og 201 þar sem dagvinnulaun eru á bilinu 525.248 til 597.180 eftir starfsaldri.
03.07.2018
Golfmótaröð lækna 2018

Golfmótaröð lækna 2018

Tveimur mótum af fjórum er nú lokið í golfmótaröð lækna 2018 sem í ár er með hátíðarsvip í tilefni aldarafmælis LÍ. Úrslitin úr þessum tveimur fyrstu mótum afmælismótaraðarinnar eru þessi:
02.07.2018
Yfirlýsing frá stjórn Læknafélags Reykjavíkur

Yfirlýsing frá stjórn Læknafélags Reykjavíkur

Heilbrigðisráðuneytið hefur í rúm tvö ár með ítrekuðum bréfaskriftum bannað Sjúkratryggingum Íslands að hleypa nýjum sérfræðilæknum inn á rammasamning SÍ og Læknafélags Reykjavíkur burtséð frá því hvort skortur sé á læknum í viðkomandi sérgrein. Það er skýrt brot á samningnum. Nú hefur ráðuneytið úrskurðað í stjórnsýslukæru taugalæknis sem var synjað um aðkomu að samningnum án mats á þörfinni. Niðurstaðan var sú að ráðuneytið taldi ekkert athugavert við málsmeðferðina.
28.06.2018
Ráðherra læsir úti læknana og kastar krónunni

Ráðherra læsir úti læknana og kastar krónunni

Því hefur verið haldið fram að rammasamningur Sjúkratrygginga Íslands við sjálfstætt starfandi sérfræðinga sé ríkinu kostnaðarsamur og það langt umfram það sem gert hefur verið ráð fyrir í fjárlögum. Í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar er komist að þeirri niðurstöðu að kostnaðaraukning frá því árið 2012 hafi verið 60% á fimm ára tímabili og ýmsir hafa gripið þá tölu á lofti. Þegar grannt er skoðað væri hins vegar miklu nær lagi að tala um þessa aukningu sem 10% eða u.þ.b. 2% á ári. Á þessum tveimur tölum er mikill munur og hann skekkir verulega mikilvæga umræðu sem nauðsynlegt er að halda á vitrænum nótum.
26.06.2018
Sjálfbært heilbrigðiskerfi

Sjálfbært heilbrigðiskerfi

Ísland gengur í gegnum þrengingar í heilbrigðiskerfinu, þar sem uppsafnaður langvarandi vandi og óánægja hefur brotist upp á yfirborðið af fullum þunga. Læknar hafa bent á þessa þróun um alllangt skeið og varað við. Við allt skipulag þarf að setja sjúklinginn í forgrunn. Það öndvegissæti eiga ekki biðlistar, reiknilíkön og pólitískar dægursveiflur að skipa. Gott aðgengi sjúklinga að læknum og annarri stoðþjónustu er það sem málið snýst um. Það virðist stundum gleymast að menntun og áralöng þjálfun starfsfólksins er grundvöllur góðs heilbrigðiskerfis.
21.06.2018
Ályktun stjórnar LÍ um nýsamþykkt lög frá Alþingi um rafrettur

Ályktun stjórnar LÍ um nýsamþykkt lög frá Alþingi um rafrettur

Í tóbaksvarnarlögum eru reykingar óheimilar á veitinga- og skemmtistöðum vegna mögulegra áhrifa sem óbeinar reykingar geta haft á heilsufar þeirra sem viðstaddir eru. Við meðferð laga um rafrettur á Alþingi var lagt til að sambærilegt bann yrði sett fyrir notkun rafrettna á veitinga- og skemmtistöðum. Með naumum meirihluta, 26 atkvæðum gegn 25 var sú breytingartillaga felld. Þegar hin nýju lög um rafrettur ganga í gildi verður eigendum veitinga- og skemmtistaða því í sjálfsvald sett hvort reykja megi rafrettur á þessum stöðum. LÍ telur mikilvægt að sömu heilbrigðis- og forvarnarsjónarmið séu höfð að leiðarljósi þegar kemur að reykingum á rafrettum. Reykur frá rafrettum inniheldur nikótín sem er vel þekkt sem sterkt og kröftugt fíkni- og ávanabindandi efni. Mengun í andrúmslofti þeirra sem ekki neyta nikótíns, en verða fyrir því að þurfa að anda að sér virku fíkni- og ávanabindandi efni með óbeinum reykingum á veitinga- og skemmtistöðu er því að mati LÍ óásættanlegt.
21.06.2018

"Við erum að nálgast fyrirkomulag sem í raun er ekki annað en tvöfalt heilbrigðiskerfi"

"Við þurfum langtíma stefnu í heilbrigðismálum sem litast ekki um of af pólitík hægri, vinstri, upp eða niður. Við þurfum ekki harðar stefnur, sem hinn vængurinn kemur sífellt og snýr á haus þegar völdum er náð. Það verður sérlega erfitt þegar skiptin verðs svo ör sem á síðustu árum." Segir Þórarinn Guðnason, formaður LR í viðtali við DV. „Við erum að tala um stefnu sem byggir einungis á stefnuskrá Vinstri grænna og röngum gögnum um vilja þjóðarinnar." "Til mótvægis bendi ég að að það var heldur ekki sátt þegar sumir töldu að fyrir dyrum stæði fyrirtækjavæðing heilbrigðisþjónustunnar í tíð fyrri ríkisstjórna.“
18.06.2018
Hvar má þetta?

Hvar má þetta?

Þórarinn Guðnason formaður LR birtir grein í Fréttablaðinu í dag. Hvar má þetta? Þar segir hann m.a.: "Samningar [Rammsamningur Sjúkratrygginga Ríksins ogLæknafélags Reykjavíkur] eru þverbrotnir, góðir stjórnsýsluhættir fótum troðnir og sjálfur forstjóri SÍ telur íhlutun og gerræði ráðuneytisins stangast á við landslög. Í engu lýðræðisríki sem tekur sig alvarlega yrðu vinnubrögð af þessu tagi liðin. Víða yrði talað um ráðherraræði og afsagnar ráðherra krafist. Ísland virðist því miður undantekning sem sannar regluna. Þetta má hér - rétt eins og í einhverjum ríkjum sem við viljum ekki bera okkur saman við."
13.06.2018
Háskaleikur heilbrigðisráðherrans

Háskaleikur heilbrigðisráðherrans

Í Morgunblaðinu í dag 8. júní 2018 birtist grein eftir Stefán E. Matthíasson formann heilbrigðisfyrirtækja og Þórarinn Guðnason formann Læknafélags Reykjavíkur. Í greininni segir m.a.: “Sérfræðiþjónusta lækna hefur um áraraðir verið kjölfesta góðrar læknisþjónustu hér á landi. Á síðasta ári tóku sérfræðilæknar á rammasamningi við Sjúkratryggingar Íslands á móti um 500 þúsund heimsóknum. Þeir framkvæmdu meðal annars um átján þúsund skurðaðgerðir og þúsundir speglana auk margskonar lífeðlisfræðilega rannsókna. “ Enn fremur kemur fram í greininni að: “Um 350 læknar starfa á samningnum í ýmsum sérgreinum. Til viðbótar eru um 300 önnur stöðugildi fagfólks í ýmsum greinum. Enda þótt starfsemin sé afar umfangsmikil er athyglisvert að hún tekur einungis til sín um 6% af heildarútgjöldum til heilbrigðisþjónustunnar. Sér¬fræðiþjón¬ust¬an er ein-fald¬lega vel rek¬in, ódýr miðað við í ná¬granna¬lönd¬um og með gott aðgengi sjúk¬linga. Gæðin þarf eng¬inn að draga í efa. Það er vand¬séð annað en að hér sé vel farið með hverja krónu skatt¬fjár¬ins”.Greinina í heild sinni má lesa á:
08.06.2018