Yfirlýsing Félags íslenskra sérnámslækna í geðlækningum um stöðu húsnæðis geðdeilda Landspítalans

Lögum samkvæmt (nr. 64/2010) mun nýr Landspítali rísa við Hringbraut þar sem áætlað er að nýr meðferðarkjarni (þjóðarsjúkrahús) verði tekinn í notkun árið 2025-2026. Í dag eru 11 ár síðan þessi lög tóku gildi. Verkefnið er stórt og spennandi þar sem að meginmarkmið um húsnæði hins opinbera eru höfð að leiðarljósi. Þau meginmarkmið fela í sér hagkvæma húsnæðisnýtingu, nútímalegt vinnuumhverfi með áherslu á fjölbreytt og sveigjanlegt rými, vandaða aðstöðu án íburðar og samnýtingu aðstöðu þvert á stofnanir. Í ljósi ofangreinds vekur það mikla furðu að í nýjum meðferðarkjarna sé ekki gert ráð fyrir nýrri geðdeild. Bygging núverandi húsnæðis geðsviðs Landspítala á Hringbraut hófst árið 1974 og er fyrir löngu úrelt og ekki í takt við þær kröfur sem gerðar eru í nútíma samfélagi. Það sama gildir um húsnæðið á Kleppi sem er öllu eldra en starfsemin þar hófst árið 1907.

Í gegnum árin hefur húsnæði geðdeilda Landspítalans fengið litlar úrbætur. Húsnæðið einkennist af þröngum göngum, gráum steinveggjum, óheyrilegum fjölda tvíbýla, gegndræpum gluggum, afar takmörkuðu aðgengi að útisvæði svo ekki sé minnst á reykingarlykt þegar gengið er framhjá reykherbergjum sem virðast öll skorta viðunandi loftræstingu. Vinnuaðstaða sérnámslækna og fleiri fagstétta á geðsviði þarfnast einnig úrbóta. Þegar gengið er inn í húsnæði geðsviðs á Hringbraut er andrúmsloftið því miður enn sterklega litað af árinu 1974. Undanfarin ár hafa þingmenn hins vegar keppst um að leggja áherslu á geðheilbrigðismál og umræðan í samfélaginu hefur verið þess efnis að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, sinna einstaklingum sem glíma við geðsjúkdóma af virðingu og takmarka þvingandi inngrip. Það verður að segjast að núverandi húsnæði og aðstaða á geðdeildum Landspítalans endurspeglar ekki þessa mikilvægu afstöðu. Við sérnámslæknar í geðlækningum störfum innan allra deilda geðsviðs Landspítalans, þar á meðal á bráðadeildum, göngudeildum, endurhæfingardeildum og fleiri sviðum. Það er mat okkar að engin geðdeild innan Landspítalans sé undanskilin þessum húsnæðisvanda og því brýn þörf á að hefja undirbúning nýrrar geðdeildar sem allra fyrst. Skjólstæðingar okkar, aðstandendur þeirra og starfsfólk á geðsviði væntir þess og á það skilið.


Reykjavík, 05.07.2021
F.h. stjórnar Félags íslenskra sérnámslækna í geðlækningum,
Oddný Ómarsdóttir, sérnámslækni