Um aðalfund Læknafélags Íslands 2021

Aðalfundur Læknafélags Íslands (LÍ) 2021 var haldinn í Reykjavík 29. og 30. október sl. á Hótel Natura. Forseti Alþjóðasamtaka lækna (World Medical Association-WMA) Heidi Stensmyren var viðstödd setningu fundarins og ávarpaði aðalfundargesti. Kjörnir aðalfundarfulltrúar voru 77.

Á aðalfundinum voru læknarnir Katrín Fjeldsted og Jón Snædal heiðruð fyrir þátttöku sína fyrir hönd LÍ í erlendu samstarfi á vegum lækna. Katrín Fjeldsted hefur frá síðustu aldamótum verið fulltrúi LÍ hjá Evrópusamtökum lækna (CPME) og var fyrsta konan til að vera forseti þeirra samtaka. Jón Snædal hefur frá svipuðum tíma verið fulltrúi Íslands í störfum Alþjóðasamtaka lækna og var um skeið forseti alþjóðasamtakanna. Bæði eru heiðursfélagar í LÍ, Jón frá 2008 og Katrín frá 2018.

Á aðalfundinum voru samþykktar nýjar siðareglur lækna eftir gagngera heildarendurskoðun sem Siðfræðiráð LÍ undir forystu Svans Sigurbjörnssonar hefur staðið fyrir. Þar var einnig samþykkt ný stefna LÍ og kynnt nýtt skráningarkerfi símenntunar lækna, Mínerva.

Loks samþykkti aðalfundurinn fjórtán ályktanir um margvísleg málefni sem snerta heilbrigðismál, auk einnar, sem snýr að innra starfi félagsins.

Ályktun um stuðning við sóttvarnalækni lýsir yfir stuðningi við störf sóttvarnalæknis á tímum covid-19 og hvetur almenning til að standa áfram með sóttvarnaryfirvöldum.

Ályktun um heilbrigðismál telur að marka þurfi stefnu heilbrigðiskerfisins til lengri og skemmri tíma, styrkleika og hagkvæmni ólíkra rekstrarforma þurfi að nýta, fjármagn fylgi sjúklingi og að komandi ríkisstjórn tryggi starfsemi hefðbundinnar læknisþjónustu til að koma í veg fyrir töf á sjúkdómsgreiningum og aðgengi að meðferðarúrræðum.

Ályktun um mönnun lækna á Landspítala og öðrum heilbrigðisstofnunum telur brýnt að ráðist verði þegar í þarfagreiningu á mönnun lækna innan allra eininga heilbrigðisstofnana m.t.t. þjónustu sem veitt er og álags í starfi. Nýleg könnun meðal lækna sýni að vel innan við þriðjungur sérfræðilækna og sérnámslækna telur mönnun fullnægjandi á sinni starfseiningu og einungis þriðjungur lækna á Landspítala telur öryggi sjúklinga ávallt tryggt.

Ályktun um húsnæði og aðstöðu Landspítala skorar á komandi ríkisstjórn að ljúka byggingu nýs meðferðarkjarna og rannsóknarhúss Landspítala á því kjörtímabili sem var að hefjast. Húsnæði og aðbúnaður standist ekki nútímakröfur. Þá er í ályktuninni mótmælt stefnu stjórnenda Landspítala um opin vinnurými, sem víða hafi verið gagnrýnd og fjöldi rannsókna gefi vísbendingar um að opin vinnurými hafi neikvæð áhrif. Loks er kallað eftir því að í nýjum stjórnarsáttmála verði það forgangsatriði að ljúka byggingu nýs meðferðarkjarna og rannsóknarhúss Landspítalans á kjörtímabilinu og að virkt samráð verði haft við lækna við þarfagreiningu á almennri starfsaðstöðu þeirra.

Ályktun um háskólasjúkrahús og kennslustofnanir, stjórnun, kennslu og vísindi skorar á forstjóra Landspítala að endurskoða skipurit spítalans með það að markmiði að búa til sterka þjónustu- og þekkingarstofnun. Þar kemur fram að í árdaga sameinaðs Landspítala um síðustu aldamót hafi Landspítali verið með hæsta tilvitnanastuðul fimm norrænna háskólasjúkrahúsa og langt fyrir ofan heimsmeðaltal. Nú vermi Landspítali botnsætið meðal norrænu háskólasjúkrahúsanna og er kominn langt undir heimsmeðaltal í tilvitnunum.

Ályktun um öryggi sjúklinga og starfsfólk bendir á að Ísland sé eina norræna þjóðin sem ekki hafi innleitt löggjöf sem tekur til refsiábyrgðar gagnvart starfsfólki í heilbrigðisþjónustu vegna alvarlegra atvika. Ekki hafi enn verið unnið úr tillögum og tilmælum starfshóps frá 2015 um úrvinnslu alvarlegra atvika innan heilbrigðiskerfisins og brýnt sé að ráðast í umbætur sem tryggi réttarstöðu heilbrigðisstarfsfólks þegar um er að ræða kerfislæg alvarleg atvik.

Ályktun um heilsugæsluna bendir á mikilvægi þess að áfram sé haldið uppbyggingu heilsugæslu sem fyrsta viðkomustaðar og að allir landsmenn hafi sinni heimilislækni. Þar er einnig minnt á mönnunarvanda heilsugæslu og þá staðreynd að stórt hlutfall einstaklinga hafi ekki eigin heimilislækni.

Ályktun um greiðsluþátttöku sjúklinga telur að endurskoða þurfi greiðslufyrirkomulag sjúklinga varðandi kostnað við læknisþjónustu og lyf. Núverandi kerfi sé flókið og mismuni fólki eftir heilsufari. Enginn viti fyrirfram hvað þeir þurfi að greiða og hafi því enga tilfinningu fyrir því að vera sjúkratryggt. Slíkt kerfi geti latt fólk til að leita nauðsynlegra lækninga og lyfjakaupa og sé læknisfræðilega óskynsamlegt.

Ályktun gegn auknu aðgengi að nikótínvörum skorar á Alþingi að setja skýrar reglur um heimildir til innflutnings, sölu, markaðssetningar og notkunar á öllum nikótínvörum. Mikilvægt sé að tryggja eftirlit með öryggi varanna, merkingar og auglýsingabann. Sömu reglur þurfi að gilda um aldursmark fyrir kaup og sölu á nikótínvörum /nikótínpúðum og gildi um rafrettur og áfyllingar þeirra svo einungis 18 ára og eldri séu heimil kaup varanna.

Ályktun gegn auknu aðgengi að áfengi áréttar andstöðu lækna við auknu aðgengi að áfengi þar sem aðgengisstýring sé sterkasta vopnið í forvörnum. Einnig skorar aðalfundurinn á stjórnvöld að leggja fram aðgerðaráætlun til að bregðast við áfengisauglýsingum.

Ályktun um sérfræðilæknisþjónustu utan sjúkrahúsa undirstrikar mikilvægi þess að snúið verði við þeirri skerðingu sem orðið hefur á þjónustu sérfræðilækna á stofu. Síðustu 5 ár hafi orðið 20% raunminnkun þessarar þjónustu og erfitt hafi reynst að fá hana annars staðar í kerfinu. Þá er í ályktuninni skorað á nýja ríkisstjórn að ganga þegar til samninga við sérfræðilækna.

Ályktun um stjórnun sjúkrahúsa hvetur heilbrigðisyfirvöld til að endurskoða stjórnun og stjórnskipulag sjúkrahúsa á Íslandi.

Ályktun um fjármögnun sérnáms lækna skorar á heilbrigðisráðherra að skilgreina fjármögnun hvers stöðugildis læknis í viðurkenndu sérnámi og að fjármögnunin fylgi hverjum lækni óháð annarri fjármögnun heilbrigðisþjónustu.

Ályktun um aðkomu lækna að stefnumótun í heilbrigðisþjónustu gerir kröfu um beinni aðkomu lækna að stefnumótun í heilbrigðisráðuneytinu en verið hefur.