Ályktun stjórnar LÍ um nýsamþykkt lög frá Alþingi um rafrettur
Í tóbaksvarnarlögum eru reykingar óheimilar á veitinga- og skemmtistöðum vegna mögulegra áhrifa sem óbeinar reykingar geta haft á heilsufar þeirra sem viðstaddir eru. Við meðferð laga um rafrettur á Alþingi var lagt til að sambærilegt bann yrði sett fyrir notkun rafrettna á veitinga- og skemmtistöðum. Með naumum meirihluta, 26 atkvæðum gegn 25 var sú breytingartillaga felld. Þegar hin nýju lög um rafrettur ganga í gildi verður eigendum veitinga- og skemmtistaða því í sjálfsvald sett hvort reykja megi rafrettur á þessum stöðum.
LÍ telur mikilvægt að sömu heilbrigðis- og forvarnarsjónarmið séu höfð að leiðarljósi þegar kemur að reykingum á rafrettum. Reykur frá rafrettum inniheldur nikótín sem er vel þekkt sem sterkt og kröftugt fíkni- og ávanabindandi efni. Mengun í andrúmslofti þeirra sem ekki neyta nikótíns, en verða fyrir því að þurfa að anda að sér virku fíkni- og ávanabindandi efni með óbeinum reykingum á veitinga- og skemmtistöðu er því að mati LÍ óásættanlegt.
21.06.2018