Yfirlýsing frá stjórn Læknafélags Reykjavíkur

Heilbrigðisráðuneytið hefur í rúm tvö ár með ítrekuðum bréfaskriftum bannað Sjúkratryggingum Íslands að hleypa nýjum sérfræðilæknum inn á rammasamning SÍ og Læknafélags Reykjavíkur burtséð frá því hvort skortur sé á læknum í viðkomandi sérgrein. Það er skýrt brot á samningnum. Nú hefur ráðuneytið úrskurðað í stjórnsýslukæru taugalæknis sem var synjað um aðkomu að samningnum án mats á þörfinni. Niðurstaðan var sú að ráðuneytið taldi ekkert athugavert við málsmeðferðina.

Læknafélag Reykjavíkur vill benda á eftirfarandi:

  1. Í upphaflegri afgreiðslu SÍ og ráðuneytisins  var rammasamningurinn brotinn þar sem ekki var leitað til samráðsnefndar LR og SÍ sem samkvæmt samningnum hefur það hlutverk að úrskurða hvort þörf er fyrir nýja lækna.
  2. Heilbrigðisráðuneytið var auk þess vanhæft að úrskurða sjálft í stjórnsýslukærunni. Ráðuneytið er gerandi í málinu og hefði átt að segja sig frá málsmeðferðinni.
  3. Að auki er úrskurðurinn í stjórnsýslukæru þeirri sem hér um ræðir rangur og tekur ekki á kjarna málsins sem er hrópandi þörf fyrir lækna í ákveðnum sérgreinum eins og taugalækningum í þessu tilviki.
  4. Úrskurður ráðuneytisins og framganga öll bitnar hart á ákveðnum sjúklingahópum sem eiga erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér.

 

Nú hefur 17 læknum í 13 sérgreinum verið meinuð aðild að rammasamningi SÍ og LR. Í að minnsta kosti 9 þessara sérgreina er mikill skortur á sérfræðilæknum og löng bið fyrir sjúklinga. Hér er því alls ekki um einangrað mál að ræða sem varðar eina sérgrein eða einn sjúklingahóp.

Við þær aðstæður sem ráðuneytið hefur nú skapað með gjörðum sínum neyðast þeir sérfræðilæknar, sem ekki fá aðgang að rammasamningnum, til að hefja sjúklingamóttöku. Sjúklingarnir greiða þá allan kostnað og láta síðan reyna á sjúkratryggingu sína og hugsanlegar endurgreiðslur frá SÍ. Til verður tvöfalt heilbrigðiskerfi þar sem sjúklingum er gert að bíða, stundum svo mánuðum skiptir, eftir tíma hjá sérfræðilækni með aðild að samningnum, eða greiða hærra verð án þátttöku ríkisins til að komast tímanlega að hjá lækni án aðildar að samningnum.

Læknafélag Reykjavíkur varar við þessari óheillaþróun og spyr hvers vegna verið sé að draga saman þjónustu hins opinbera utan sjúkrastofnana. Með því að takmarka eða hætta greiðsluþátttöku ríkisins í þeim lækniskostnaði skapast tvöfalt heilbrigðiskerfi og þörf landsmanna fyrir að kaupa sér sjúkratryggingu hjá einkatryggingarfélögum eykst. Er þetta stefna núverandi ríkisstjórnar?

Læknafélag Reykjavíkur ítrekar ennfremur ályktun nýafstaðins aðalfundar félagsins:

„Aðalfundur Læknafélags Reykjavíkur 2018, skorar á heilbrigðisráðherra að tryggja nýliðun lækna sem veita þjónustu sína utan heilbrigðisstofnana og standa við gerðan rammasamning þess efnis. Eins skorar félagið á ráðherrann að tryggja samfellu í þeim hluta opinbera kerfisins sem byggður hefur verið upp utan heilbrigðisstofnana og ganga þegar til samninga áður en rammasamningur sérfræðinga við SÍ fellur úr gildi.“

 

Reykjavík í júní 2018

Stjórn Læknafélags Reykjavíkur