Heilbrigðisráðherra vill ekki að læknar tali um neyðarástand
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði á fundi með læknaráði í gær að það væri mikil áskorun fyrir hana að standa með Landspítalanum þegar ályktanir um slæma stöðu stofnunarinnar kæmu út á færibandi. Hún lýsti yfir vonbrigðum með orðanotkun lækna eftir að vísað var í ástandið á bráðamóttökunni sem „neyðarástandi“ og „skelfingarflækju“.
„Okkur langar mikið til að heyra hvað ráðherra leggur til, bæði af fjármagni og góðum ráðum, til að greiða úr þessari skelfingarflækju sem blasir við hér á hverjum degi og hefur blasið við liðið ár,“ var spurt úr sal og lýsti Svandís yfir vonbrigðum um að umræður um neyðarástand væru á lofti.
14.01.2020