Heilbrigðisráðherra vill ekki að læknar tali um neyðarástand

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði á fundi með læknaráði í gær að það væri mikil áskorun fyrir hana að standa með Landspítalanum þegar ályktanir um slæma stöðu stofnunarinnar kæmu út á færibandi. Hún lýsti yfir vonbrigðum með orðanotkun lækna eftir að vísað var í ástandið á bráðamóttökunni sem „neyðarástandi“ og „skelfingarflækju“.

„Okkur langar mikið til að heyra hvað ráðherra leggur til, bæði af fjármagni og góðum ráðum, til að greiða úr ‏þessari skelfingarflækju sem blasir við hér á hverjum degi og hefur blasið við liðið ár,“ var spurt úr sal og lýsti Svandís yfir vonbrigðum um að umræður um neyðarástand væru á lofti.

„Skelfingarflækja var orðið sem hann notaði. Það er orðið býsna langur listi af orðum og hugtökum sem hafa verið notuð um ástandið á bráðamóttöku,“ sagði Svandís og biðlaði til læknaráðs að tala ekki niður spítalann.

Með því að lýsa Landspítalanum sem skelfingarvettvangi væru læknarnir að fæla frá ungt fólk sem gæti tekið þátt í uppbyggingu og framþróun heilbrigðisþjónustunnar.

Sjá nánar grein í Fréttablaðinu