Úr fjölmiðlum

Staðan á Landspítala verulegt áhyggjuefni

Formaður læknaráðs Landspítalans segir að uppsagnir ljósmæðra og yfirvofandi yfirvinnubann ógni góðum árangri í baráttunni gegn andvana fæðingum og nýburadauða. Staðan vegna kjaradeilu ljósmæðra sé verulegt áhyggjuefni.Ljósmæður höfnuðu tilboði samninganefndar ríkisins í gær og sagði formaður samninganefndar að staðan væri orðinn verri.
Lesa meira

Mikilvægi ljósmæðra í þjónustu við nýfædd börn

Ljósmóðurstarfið er fjölbreytt. Auk þess að sinna konum á meðgöngu, í fæðingu og eftir barnsburð er stór hluti af starfsskyldum ljósmæðra eftirlit og umönnun hins nýfædda barns. Má þar nefna aðstoð við brjóstagjöf og umönnun barna sem eru létt við fæðingu. Fylgjast þarf með blóðsykri hjá börnum mæðra með sykursýki á meðgöngunni og sjá til þess að þau nærist vel. Mæla þarf reglulega lífsmörk hjá börnum sem eru í hættu á að fá sýkingu, til dæmis ef móðirin var með hita í fæðingunni eða er með streptókokka í fæðingarvegi. Einnig má nefna að nýlega var farið að skima alla nýbura fyrir alvarlegum hjartasjúkdómum með mælingu á súrefnismettun, nokkuð sem er í höndum ljósmæðra. Eftir útskrift sinna ljósmæður móður og barni næstu daga í heimahúsi. Augljóst er hversu mikilvægt starf þeirra er fyrir velferð nýburans og eiga ljósmæður tvímælalaust stóran þátt í þeim góða árangri sem við getum státað okkur af og kristallast í hinum lága ungbarnadauða hér á landi.
Lesa meira

"Kaldhæðni örlaganna ef arfleifð núverandi heilbrigðisráðherra yrði tvöfalt kostnaðarkerfi sjúklinga"

Ólafur Ó. Guðmundsson, barna- og unglingageðlæknir og stjórnarmaður í Læknafélagi Íslands, telur að stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum kunni að leiða til myndunar tvöfalds kostnaðarkerfis sjúklinga þar sem einungis hinir efnameiri hafi ráð á því að leita til sérfræðilækna. „Afleiðing pólitísks ásetnings ráðuneytisins getur orðið sú að læknisþjónusta verði annars vegar ríkisrekin með óhjákvæmilegum biðlistum og hins vegar einkarekin fyrir þá sem efni á henni hafa,“ skrifar Ólafur í pistli sem birtist í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. „Það yrði kaldhæðni örlaganna ef arfleið núverandi heilbrigðisráðherra yrði tvöfalt kostnaðarkerfi sjúklinga en sú hætta er raunverulega fyrir hendi fari fram sem horfir.“
Lesa meira

Eina vitið - opið bréf til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra

Bjarni, á þriðjudaginn birtist stuttur pistill á heimasíðu fjármálaráðuneytisins vegna fjölmiðlaumfjöllunar um kjör ljósmæðra. Pistillinn er í símskeytastíl og er greinilega ætlað að sýna okkur fram á að við Íslendingar gerum býsna vel við ljósmæður. Ég er feginn því að þú berð ábyrgð á honum en ekki ég. Þriðja málsgreinin í pistlinum bendir á að á síðasta áratug hafi stöðugildum ljósmæðra á Íslandi fjölgað um 33% en fæðingum fækkað um rúm 8%. Við eigum sjálfsagt að draga þá ályktun að afkastageta ljósmæðranna okkar hafi minnkað í einhvers konar hlutfalli við vaxandi frekju þeirra. Þetta bréf mitt til þín skrifaði ég vegna þess að þú ert drengur góður og ég er viss um að þér eru ekki kunnugar eftirfarandi staðreyndir, annars myndirðu ekki láta svona:
Lesa meira

Tilnefndar til félagsaðildar í Royal College of Physicians í London

Anna Björg Jónsdóttir öldrunarlæknir og Inga Sif Ólafsdóttir lyf- og lungnalæknir á Landspítala hafa verið tilnefndar til að verða félagar í Royal College of Physicians (RCP) í London. Báðar hafa komið að innleiðingu sérnáms í almennum lyflækningum á Landspítala sem er í samvinnu við RCP. Það þykir mikill heiður að vera félagi í þessum samtökum sem halda upp á 500 ára afmæli sitt á þessu ári
Lesa meira

Tólf gjörgæslurúm á Landspítala - dugar það til?

Álagið á gjörgæsludeildum Landspítala eykst með ári hverju. Starfsfólkinu reynist sífellt örðugara að veita sjúklingum tilætlaða þjónustu og úrræðin eru fá. Á Landspítala eru tvær gjörgæsludeildir, ein á Hringbraut og önnur í Fossvogi. Á báðum er blandað saman börnum og fullorðnum sem þurfa meðferð á gjörgæslu um skemmri eða lengri tíma vegna alvarlegra bráðra veikinda eða slysa, sem og þeim sem gengist hafa undir stóra valkvæða aðgerð, til dæmis hjartaskurðaðgerð.
Lesa meira

Lög um brottnám líffæra við andlát

Meðal merkustu framfara læknisfræðinnar er flutningur líffæris frá líffæragjafa í annan einstakling sem þjáist af alvarlegri líffærabilun. Meðferðin getur bjargað lífi sjúklinga eða bætt lífsgæði þeirra verulega og þrátt fyrir að eiga sér ekki langa sögu hefur hún verið í mikilli framþróun og er enn. Fjöldi þeirra sem þurfa á líffærum að halda eykst stöðugt en framboð hefur ekki aukist að sama skapi.1 Líffæragjöf frá látnum einstaklingi er möguleg ef hann hefur verið úrskurðaður látinn samkvæmt skilmerkjum heiladauða og ljóst er að heilastarfsemi hefur stöðvast á óafturkræfan hátt. Helstu orsakir þess eru heilablóðföll eða alvarlegar heilaskemmdir vegna höfuðáverka. Árið 1991 samþykkti Alþingi lög um að nema mætti brott líffæri úr líkama einstaklings að honum látnum ef hann hefði lýst yfir vilja til þess í lifanda lífi en ef slík yfirlýsing væri ekki fyrir hendi þyrfti samþykki nánustu
Lesa meira

Læknaráð Landspítalans lýsir áhyggjum af ljósmæðradeilunni

Kjarabarátta hefur staðið allt of lengi að mati læknaráðs Landspítalans sem lýsir miklum áhyggjum af ástandi á fæðingardeild spítalans vegna uppsagna ljósmæðra og kjaradeilu þeirra við ríkið í ályktun sem það sendi frá sér í dag. Í ályktuninni segir að ljósmæður vinni mikilvægt starf við umönnun kvenna á meðgöngu. Á Íslandi hafi náðst mjög góður árangur í fæðingaþjónustu þegar skoðaðar eru tölur um burðarmálsdauða og mæðradauða. Samstarf ljósmæðra og lækna í umönnun kvenna á meðgöngu sé þar lykilatriði. „Heilbrigðiskerfið virkar sem keðja og ef einn hlekkur hennar er ekki til staðar þá rofnar þjónustan og hætta er á að ekki takist að halda í þann góða árangur sem við höfum náð í fæðingaþjónustu á Íslandi,“ segir ráðið.
Lesa meira

Geta ekki unnið vinnuna sína án ljósmæðra

Sérfræðilæknar Kvennadeildar Landspítalans hafa miklar áhyggjur af ljósmæðradeilunni, enda virðist engin lausn í sjónmáli. Læknarnir sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem kemur fram að næstu vikur verði erfiðar og fækkunin muni strax segja til sín í minni þjónustu. „Við læknarnir getum nefnilega ekki unnið vinnuna okkar án ljósmæðra, svo einfalt er það. Samstarf okkar er mjög mikið og náið og við treystum á þær og þær á okkur. Þó að við reynum að láta öryggi fæðandi kvenna ganga fyrir með þeim mannafla sem við höfum vitum við að störf ljósmæðra snúast um svo miklu meira en að taka á móti börnum.“
Lesa meira

Sakar ráðuneytið um vanhæfi og brot á rammasamningi SÍ

Læknafélag Reykjavíkur segir að heilbrigðisráðuneytið hafi brotið rammasamning Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og félagsins með því að hafa í rúm tvö ár bannað SÍ að hleypa nýjum sérfræðilæknum inn á samninginn, burtséð frá því hvort skortur sé á læknum í viðkomandi sérgrein. Þá telur Læknafélag Reykjavíkur (LR) ráðuneytið auk þess vanhæft að úrskurða sjálft í stjórnsýslukæru taugalæknis sem synjað var um aðkomu að samningnum. Ráðuneytið sé gerandi í málinu og hefði átt að segja sig frá málsmeðferðinni. Niðurstaða ráðuneytisins var sú að ekkert hafi verið athugavert við málsmeðferðina.
Lesa meira