Engin plön um að lyfta Íslandi úr botnsætinu

Ráðherrar bera ábyrgð. Þeir komast ekki hjá því að láta kalda rökhyggju ráða för. Hinir, sem minni ábyrgð bera, eru frjálsari að því að tala á nótum tilfinninga. Fáir þekkja betur en núverandi heilbrigðisráðherra, að sú staða er miklu þægilegri þegar tala þarf til kjósenda um heilbrigðismál.

Fallast verður á það með ráðherranum að varasamt geti verið að spinna einstakar fréttir upp í mikinn tilfinningahita. En það þýðir ekki að fréttir af Landspítalanum komi umræðunni ekki við. Þegar þær eru virtar í heild segja þær óneitanlega mikla sögu, sem þjóðin á rétt á að þekkja.

Flestir, sem horfa og hlusta á fréttir Ríkisútvarpsins um heilbrigðismálin, skynja vaxandi þunga í tíðindum af neyðarástandi, lokunum, biðlistum, uppsögnum, skorti á hjúkrunarfræðingum, skorti á hjúkrunarrýmum og skorti á efndum á að leysa úr þeim skorti. Ekkert bendir til þess að sú mynd, sem fréttastofan sýnir af málefnum Landspítalans, sé röng eða villandi.

Af þessum fréttum má ekki draga þá ályktun að ástandið skrifist alfarið á reikning núverandi ráðherra. Þetta er uppsafnaður vandi. En ástandið hefur ekki farið batnandi það sem af er kjörtímabilinu og hveitibrauðsdagarnir eru löngu liðnir. Það er pólitíska hlið málsins.

Sjá grein Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu