Ráðherra segir undirskriftir lækna „grafalvarleg skilaboð“

„Mér finnst þetta grafalvarleg skilaboð. Mér finnst að þegar áhyggjurnar eru svo miklar að fólk skipuleggur sig utan um það að skrifa undir yfirlýsingu af þessu tagi, að þá finnst mér að við eigum að leggja við hlustir,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í Morgunútvarpinu á Rás 2 nú í morgun um áskorun nærri 1.000 lækna sem bárust til hennar á dögunum.

„Þetta er mjög mikill þungi þó að þessar áhyggjur eigi engan veginn við alla þætti kerfisins,“ sagði hún en læknar listuðu upp helstu áhyggjumál sín í fylgiskjali með undirskriftunum sem nálgast má hér. Mikilvægt sé að samtal og samráð eigi sér stað innan stofnana.  „Ég hef lagt áherslu á það við forstjóra heilbrigðisstofnana að það sé gott samráð og opnir kanalar innan hverrar heilbrigðisstofnunar.“

Theódór Skúli Sigurðsson, Steinunn Þórðardóttir, Berglind Bergmann og Jón Magnús Kristjánsson afhentu þeim Ástu Valdimarsdóttur, ráðuneytisstjóra, og Birgi Jakobssyni, fyrrum landlækni og nú aðstoðarmanni ráðherra, undirskriftirnar við anddyri heilbrigðisráðuneytisins þann 23. júní.

Svandís sagði að áfram þyrfti að bæta í fjármuni heilbrigðisþjónustunnar. Starfsemin væri þess eðlis. Þjóðin væri að eldast. „Ég er sammála þeim sem segja að það þarf ennþá að bæta í.“ Hún sagði stöðuna á bráðamóttökunni birtingarmynd vandans í heilbrigðiskerfinu. „Ráðuneytið hefur stigið inn í þau mál ítrekað. Því miður er það ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist núna.“

Landspítalinn, Sjúkratryggingar og ráðuneytið fari yfir stöðuna reglulega til þess að leita leiða svo leysa megi vandann. „Sjúkrahúsið er sjálft að vinna í að skoða og bæta skipulag þjónustunnar innanhúss. En ráðuneytið horfir til að létta á í öðrum þáttum kerfis eins og það að bæta möguleikana á að hægt sé að útskrifa fólk. Þetta er viðvarandi verkefni og mun verða það.“

Rætt var við Svandísi um leghálsskimanirnar og tilfærsluna frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslunnar um áramót. „Traustið á þessum breytingum er ekki fyrir hendi í samfélaginu, það er áhyggjuefni í sjálfu sér,“ sagði hún og upplýsti að nú væri í skoðun að flytja greininguna heim. Til þess þurfi undirbúning. Landspítalinn þurfi tíma til að undirbúa sig.

„Landspítalinn telur sig geta tekið við málinu að undangengnum töluverðum undirbúningi. Það er það sem við erum að skoða núna og ég vonast til að geta skýrt frá þessu með nákvæmari hætti, það er að segja ráðuneytið og heilsugæslan, alveg á næstu dögum.“

Fjölmiðlar hafa undanfarna daga enn og aftur bent á brotalamirnar í yfirfærslunni á þjónustunni frá Krabbameinsfélaginu. Sagt var frá því á dögunum hvernig beiðnum um greiningu á sýnum hafi verið hent.

Ebba Margrét Magnúsdóttir, fæðinga- og kvensjúkdómalæknir og fyrrverandi formaður Læknaráðs Landspítala, var í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær. Hún sagði þar að hún velti því fyrir sér hvort förgun slíkra sýna væri mögulega saknæm.

„Þetta er algerlega fádæmalegt atvik og þetta er ekki eitt sýni heldur fleiri sem hefur verið hent. Ég leyfi mér að velta því fyrir mér hvort þetta sé saknæmt athæfi,“ sagði hún og að ekki væri aðeins gert lítið úr þeim sem séu með einkenni leghálskrabbameins heldur líka úr þeim sérfræðilæknum sem hafi metið það nauðsynlegt að taka og greina sýnin.

Ebba Margrét rifjaði í viðtalinu upp þegar heilbrigðisráðherra skammaði Læknaráð Landspítala fyrir að segja frá vanda spítalans. „Í síðustu viku fóru læknar með kvartanir í ráðuneytið. Hún gat ekki hitt þá. Núna heyrist ekki hósti eða stuna frá öllum þessum stjórnendum. Það er búið að tala um þetta mál í hálft ár. Þetta er í mjög miklum ólestri ennþá en það axlar enginn þá ábyrgð. Ég kalla eftir skýringu á því.“

Mynd/gag/ Við afhendingu undirskriftanna þann 23. júní.

  • Frétt Vísis hér sem og viðtalið við Ebbu Margréti á Bylgjunni.
  • Viðtalið við heilbrigðisráðherra og frétt RÚV hér.