LÍ leggst gegn skoðanakönnun á afstöðu til dánaraðstoðar

Læknafélag Íslands getur ekki stutt tillögu um að heilbrigðisráðherra verði falið að láta gera skoðanakönnun meðal heilbrigðisstarfsfólks um afstöðu þess til dánaraðstoðar. Félagið telur umræðu um dánaraðstoð hafa verið einhliða og bjagaða. Þetta kemur fram í áliti félagsins sem sent var nefndarsviði Alþingis þann 12. apríl síðastliðinn.

Þar segir: „Félagið telur umræðu um dánaraðstoð hafa verið einhliða og bjagaða. Skýrsla heilbrigðisráðherra sem kynnt var í byrjun september 2020 hefur verið gagnrýnd af fagfólki [...]. Forysta LÍ hefur tekið undir þá gagnrými og fjallað um dánaraðstoð, sjá t.d. hér. LÍ leggst því gegn því að skoðanakönnun af þessu tagi verði gerð fyrr en umræðan um dánaraðstoð verður víðtækari og almennari og ekki knúin fram af þeim sem harðast vilja beita sér fyrir lögleiðingu dánaraðstoðar.“

Afstaða Læknafélagsins hefur orðið uppspretta frétta síðustu daga, bæði í Kjarnanum og á Vísi.

Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélagsins, ritar undir álitið fyrir hönd stjórnar sem lesa má í heild sinni hér.