Ekki auðleyst verkefni en verður að ráðast í

Læknafélag Íslands (LÍ) fagnar því að stjórnvöld virðist ætla að leggja aukna áherslu á samráð og samtal við helstu hagaðila um viðbrögð og áherslur til viðhalds og eflingar heilbrigðiskerfisins. Félagið vill að þessu tilefni koma eftirfarandi á framfæri í kjölfar fundar ráðherranefndar um samræmingu mála vegna Covid með fulltrúum nokkurra heilbrigðisstétta (hjúkrunarfræðinga, lækna og sjúkraliða), sem haldinn var 6. ágúst 2021. Horft er til stöðunnar í dag og til framtíðar.

LÍ tekur undir þær áhyggjur sem fram hafa komið um hættuna sem fylgt getur núverandi vexti í covid smittölum og fram kom í máli staðgengils sóttvarnarlæknis og forstjóra Landspítalans í beinni útsendingu frá fundi Almannavarna þann 5. ágúst 2021.

Fyrir liggur að auk viðbragða við núverandi stöðu og getu heilbrigðiskerfisins er nauðsynlegt að skipuleggja læknis- og heilbrigðisþjónustu til framtíðar. Í fyrirrúmi verða að vera sóttvarnaráðstafanir og önnur heilbrigðisþjónusta sem tryggir að ekki verði töf á sjúkdómsgreiningum og meðferð annarra heilbrigðisvandamála auk meðferðarúrræða við hááhættu smitsjúkdómum. Þetta er ekki auðleyst verkefni en verður að ráðast í. Meðal verkefna og áhersluatriða að mati Lí eru:

  1. Marka þarf stefnu heilbrigðiskerfisins til skemmri og lengri tíma með ólíkum og sveigjanlegum sviðsmyndum þar sem allir hlutar heilbrigðiskerfsins taka þátt.
  2. Öryggi sjúklinga og starfsmanna sé tryggt öllum stundum við síbreytilegar aðstæður. Fyrir liggi mótvægisaðgerðir á álagsstundum sem tryggi sveigjanleika í starfi, svigrúm til hvíldar og réttláta umbun þeirra sem sinna áhættusömum störfum og annarra á álagstímum.
  3. Taka þarf mannaflaþörf heilbrigðiskerfisins til endurskoðunar, meta ábyrgð og vinnuþyngd starfseininga sem grundvöll að nýrri mannauðsstefnu.
  4. Hafa skýrar viðbragðsáætlanir fyrir ólíkar svipmyndir byggðar á vísindalegri þekkingu og reynslu, sem taka tillit til þess að líffræðilega breytileika sem einkennir smitsjúkdómafaraldra.
  5. Leggja mat á álags- og áfallaþol heilbrigðiskerfisins og benda á leiðir til úrbóta. Horfa verður til læknisþjónustu og heilbrigðismála á landsvísu.
  6. Tryggja starfsemi hefðbundinnar læknisþjónustu og koma í veg fyrir töf á sjúkdómsgreiningum og aðgengi að meðferðarúrræðum.
  7. Enduskoða verkaskiptingu innan heilbrigðiskerfisins þannig að allir þættir geti starfað og veitt þjónustu. Hyggja að flutningi meðferðarúrræða á milli þjónustuaðila til að tryggja samfellu og aðgengi m.a. með samningum við sjálfstætt starfandi lækna og þjónustuveitendur.
  8. Endurskoða innra skipulag, verkefni og þjónustu Landspítala.
  9. Styrkja samvinnu opinberrar og einkarekinnar þjónustu með mögulegri tilfærslu verkefna og sveigjanleika í samvinnu. Veita þjónustu á réttum stöðum og forðast sóun út frá faglegum og hagkvæmnissjónarmiðum.
  10. Uppbygging farsóttarstofnunar og kanna möguleika á sérhæfðum meðferðarúrræðum utan Landspítala.

Hér má nálgast minnisblað formanns LÍ sem sent var ráðherranefnd