Fjöldi lækna tekur þátt í Læknadögum

„Nýleg rannsókn í Nature sýnir að fólk sem lagðist inn á sjúkrahús vegna COVID-19 og hafði lágt D-vítamín-gildi fór verr út úr veikindum sínum en það sem mældist með eðlilegt D-vítamín,“ segir Hannes Hrafnkelsson heimilislæknir í viðtali við Læknablaðið en hann stýrir málþingi á Læknadögum um mikilvægi vítamínsins. 

Skráning á Læknadaga sem haldnir verða í Hörpu 18. - 22. janúar 2021 stendur nú yfir. Þegar hefur fjöldi lækna tryggt sér aðgang að ráðstefnunni og geta horft á málþingin í allt að mánuð eftir að þeim lýkur. Málþingin eru mæld í tugum, eða yfir 30 auk hádegisfyrirlestra Vel yfir 130 manns taka þátt í umræðum og halda fyrirlestra. Aðgangseyrir er 30 þúsund og má fá miða á tix.is. Læknadagar eru einungis opnir læknum og heilbrigðisstarfsfólki.

Í ljósi aðstæðna vegna Covid-19 verða Læknadagar 2021 rafrænir og hefur Fræðslustofnun lækna samið við Advania um utanumhald viðburðarsíðu sem geymir skráningu, útsendingu dagskrár og sýningarsvæði fyrir lyfjafyrirtæki. Tæknimenn Hörpu sjá um útsendinguna sem verður úr þremur sölum, Norðurljósum, Kaldalóni og Rímu.

Dagskrá Læknadaga 2021 

  • Sjáðu viðtal við Hannes um D-vítamínið og málþingið í Læknablaðinu hér.
  • Sjáðu hvernig læknarnir Guðrún Ása Björnsdóttir og Berglind Bergmann tala um málþingið um tækni í heilbrigðisþjónustu í Læknablaðinu hér.
  • Sjáðu hvernig Hans Tómas Björnsson vísindastarf í Læknablaðinu hér en hann er einn þeirra sem stýrir málþinginu um styrki og vísindaárangur á Landspítala.

Skráning á Læknadaga er nú í fullum gangi og er læknum bent á að skrá sig sem fyrst, því þátttökugjald hækkar eftir að Læknadagar hefjast.