Aðalfundur Læknafélags Íslands

Aðalfundur Læknafélags Íslands (LÍ) á aldarafmælisári félagsins 2018 hófst í gær, 8. nóvember í húsnæði læknafélaganna í Hlíðasmára 8, Kópavogi. Heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir var viðstödd setningu fundarins og ávarpaði aðalfundargesti. Kjörnir aðalfundarfulltrúar eru 65 en aðalfundurinn er opinn öllum félagsmönnum sem eru kringum 1400.

Í setningarávarpi formanns LÍ, Reynis Arngrímssonar, minntist hann aldarafmælisins og hátíðarhalda í tilefni þess, sem byrjuðu með afmælishátíð hinn 15. janúar sl. undir heitinu Læknar og umhverfi og staðið hafa allt árið með ýmsum viðburðum af fjölbreyttum toga.

Formaður LÍ vísaði einnig til nýlegrar yfirlýsingar Samtaka evrópskra lækna, sem LÍ á aðild að og sagði:

"Í nýlegri yfirlýsingu Samtaka evrópskra lækna sem LÍ á aðild að er minnt á hlutverk læknisins og að nákvæm sjúkdómsgreining og samskipti við einstaka sjúklinga sem afleiðing hennar skipta meginmáli í meðferð þeirra og velferð. Í öllum Evrópulöndum eru læknar grunnstoð og uppistaðan í læknis- og annarri heilbrigðisþjónustu þrátt fyrir að heilbrigðisstofnanir, atvinnurekendur og stuðningsþjónusta beri einnig ábyrgð á því að nægu fjármagni sé veitt til þjónustunnar og rétt skilyrði sköpuð.

Umönnun sem veitt er án þess að til hafi komið sjúkdómsgreining og stofnað hafi verið til viðeigandi meðferðar af hálfu læknis er ógnun við gæði og öryggi heilbrigðisþjónustu og leiðir til útgjalda án faglegrar undirbyggingar og sóunar á almannafé."

Síðar í ávarpi sínu minnti formaður LÍ fundarmenn á ábyrgð lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna og sagði:
 

"Ábyrgð okkar heilbrigðisstarfsfólks og heilbrigðisyfirvalda er einnig mikil þegar kemur að því hvernig við fjöllum um þjónustuna og heilbrigðiskerfið í heild. Við megum ekki festast inn í neikvæðri umræðuhefð með upphrópunum þegar fjallað er um heilbrigðisþjónustu og þau störf sem þar eru unnin. Vissulega er heilbrigðisþjónustan á Íslandi ekki fullkomin og háð ytri aðstæðum og sviptivindum í samfélaginu og ríkisrekstri, en hún skorar hátt á alla alþjóðlega mælikvarða. Okkar sameiginlega markmið er að taka höndum saman um að tryggja að svo verði áfram. Þegar málaflokkurinn er skoðaður af sanngirni og framlag hvers þjónustuaðila er metið er ávinningur af störfum þeirra og framlag til velferðar þjóðarinnar meira, - mun meira en agnúar sem bent hefur verið á."

Í lok ávarps síns sagði formaður LÍ:

 "Varðveitum gleðina í störfum okkar og samskiptum. Höfum hag sjúklinga í fyrirrúmi og varðveitum öflugt heilbrigðiskerfi – grunnstoð velferðar   samfélagsins. Siglum beitivind þegar móti blæs og reynum að ná saman landi."

Ávarp formanns LÍ má lesa HÉR.

Því næst ávarpaði heilbrigðisráðherra aðalfundarfulltrúa og reifaði þau mál sem henni eru efst í huga á afmælisári LÍ. Brýnasta viðfangsefnið væri að hennar mati stefnumótun í heilbrigðismálum þó glíman við fyrirsagnir dagsins tæki oft mestan tíma. Ráðherra fór yfir stöðu mála í vinnu að nýrri heilbrigðisáætlun til 2030. Hún vísaði til heilbrigðisþingsins sem haldið var 2. nóvember sl. og hefði tekist svo vel að líklega yrði það hluti heilbrigðisstefnunnar að halda slíkt þing árlega. Drög heilbrigðisstefnu kæmu fljótlega inn í samráðsgátt og tillaga til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu yrði lögð fyrir Alþingi á vorþingi. Ráðherra rakti síðan helstu þættina í drögum heilbrigðisstefnu og sagðist sjálf vilja leggja sérstaka áherslu á aðgengi allra að sérfræðilæknisþjónustu án tillits til búsetu. Aukið hlutverk heilsugæslunnar væri forgangsmál. Hún vildi efla enn frekar þverfaglega þjónustu í heilsugæslunni. Aukin áhersla á geðheilsu og geðheilbrigðismál sæist í fjölgun sálfræðinga í heilsugæslu og nýstofnuð Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar á landsvísu hefði mikilvægu hlutverki að gegna. Í lok ávarps síns óskaði ráðherra læknum velfarnaðar í mikilvægum störfum þeirra og góðs gengis í aðalfundarvinnunni.

Ávarp ráðherra má lesa HÉR.

Að ávörpum loknum hófust venjuleg aðalfundarstörf. Farið var yfir skýrslu stjórnar LÍ fyrir starfsárið 2017-2018, reikningar félagsins og stofnana þess kynntir og samþykktir, tillögur til ályktana og lagabreytinga voru kynntar. Vinnuhópar munu fjalla nánar um hvorutveggja.

Aðalfundi var frestað kl. 18:00.

Í aðalfundarhófi í gærkvöldi sem haldið var í Háteigi á Grand Hóteli voru fjórir kvenlæknar heiðraðir fyrir störf sín: Bergþóra Sigurðardóttir og Þórey J. Sigurjónsdóttir voru heiðraðar fyrir framlag til jafnréttis í læknastétt en þær voru í hópi fyrstu 25 kvennanna sem útskrifuðust úr læknadeild Háskóla Íslands. Guðrún Agnarsdóttir var heiðruð fyrir störf að samfélagsmálum og Helga Ögmundsdóttir fyrir uppbyggingu rannsóknarnáms í læknis- og lífvísindum.

Þórey J. Sigurjónsdóttir ásamt formanni LÍ

Þórey J. Sigurjónsdóttir ásamt Reyni Arngrímssyni formanni LÍ.