Námskeið til endurheimtar frá streitu í mars

Læknar eiga á hættu að kulna þegar siðferðisgildi þeirra skaðast. Þeir verða að fá tækifæri til að sinna skjólstæðingum sínum eins vel og þeir geta. Þetta segja þær Kristín Sigurðardóttir slysa- og bráðalæknir og Margrét Ólafía Tómasdóttir heimilislæknir í viðtali í 2. tölublað Læknablaðsins 2021, sem er nýútkomið.

„Það þýðir ekki að segja okkur læknum stöðugt að hlaupa hraðar. Við verðum að fá tækifæri til endurheimtar. Það var aldrei góðæri í heilbrigðiskerfinu og eftir hrunið var enn frekar dregið saman,“ segir Kristín í viðtalinu. Hún ásamt fleirum hélt utan um heilsdags málþing um áföll og streitu á fyrsta degi Læknadaga. 

Kristín stendur í mars ásamt Erlu Gerði Sveinsdóttur og  Gyðu Dröfn Tryggvadóttur fyrir námskeiði dagana 15.-19. mars sem er sérsniðið fyrir lækna í samvinnu við Læknafélag Íslands. Áhersla verður meðal annars lögð á streitu og seiglu, svefn og líkamsklukkuna, álag og ósjálfráða taugakerfið. (Polyvagal Theory), meðvirkni - einkenni og áhrif á sambönd og samskipti. Áhugasamir geta haft samband við heillheimur@heillheimur.is og skoðað nánar hér.

Sjáðu viðtal við þær Kristínu, Erlu Gerði og Gyðu Dröfn úr 10. tölublaði Læknablaðsins 2020 hér.

Á mynd: Erla Gerður, Margrét Ólafía og Gyða standa hér þétt við bak Kristínar fyrir miðri mynd. Þær Erla Gerður, Kristín og Gyða standa að námskeiðinu. Mynd/Læknablaðið