Lyfjaskortur og lyfjaverð

Viðskiptablaðið fjallaði þann 11. Júlí sl. um lyfjaverð og lyfjaskort á Íslandi.

Þar er m.a. viðtal við Jörund Kristinsson heimilislækni og varaformann LÍ  og Salóme Ástu Arnardóttur formann FÍH sem bæði eiga sæti í stjórn LÍ.

“Jörundur Kristinsson heimilislæknir segir að lyfjaskortur sé orðinn það mikið vandamál að stjórnvöldum beri að gera eitthvað í stöðunni en hann ritaði á dögunum grein í Læknablaðið þar sem hann vakti athygli á málinu. „Ég hef gríðarlegar áhyggjur af þessu. Þessi lyfjaskortur hefur meðal annars valdið því að í sumum tilvikum hafa sýklalyf með breiða virkni verið notuð í stað sérvirkra sem getur ýtt undir sýklalyfjaónæmi.“ Hann bætir við að kollegar hans séu uggandi yfir stöðunni og hann sé að á þeirri skoðun að réttinum til skráningar lyfs hér á landi ætti að fylgja sú kvöð að lyfið verði alltaf fáanlegt. Spurður hvort hann telji að lyfjaverð sé einfaldlega það lágt að framleiðendur sjái ekki hag sinn í að skrá lyfin hér á landi segir hann að það geti vel verið. „Það er hugsanlega rétt því ef lyfjaverð væri hærra þá sæju framleiðendur þessara lyfja sér hag í því að bjóða upp á þau hér á landi. Svo gæti smæð markaðarins einnig spilað inn í. Svo má ekki gleyma þeim mikla kostnaði sem fylgir því að hafa lyf skráð. Þetta skapar mikinn vanda fyrir bæði lækna og sjúklinga og er virkilega tímafrekt.“ Salóme Ásta Arnardóttir, formaður félags íslenskra heimilislækna, tekur undir það að lyfjaskortur sé mikið vandamál hér á landi. „Það hafa verið uppi hugmyndir að koma á sameiginlegu útboði á lyfjum á Norðurlöndunum og mér þykir það vera mjög spennandi hugmynd.“ Hún bætir við að hún telji að þótt staðan sé óþægileg muni hún ekki skapa hættu. „Þetta skapar aðallega mikil óþægindi og vesen bæði fyrir sjúklinga og lækna. Þetta er eitthvað sem stjórnvöld þyrftu að skoða og finna lausn á." 

Sjá grein í Viðskiptablaðinu

Sjá grein Jörundar í Læknablaðinu