Tólf gjörgæslurúm á Landspítala - dugar það til?

Álagið á gjörgæsludeildum Landspítala eykst með ári hverju. Starfsfólkinu reynist sífellt örðugara að veita sjúklingum tilætlaða þjónustu og úrræðin eru fá. Á Landspítala eru tvær gjörgæsludeildir, ein á Hringbraut og önnur í Fossvogi. Á báðum er blandað saman börnum og fullorðnum sem þurfa meðferð á gjörgæslu um skemmri eða lengri tíma vegna alvarlegra bráðra veikinda eða slysa, sem og þeim sem gengist hafa undir stóra valkvæða aðgerð, til dæmis hjartaskurðaðgerð.

Á hvorri deild er pláss fyrir 11 sjúklinga. Undanfarinn áratug hefur þó einungis verið hægt að manna 7 pláss í hvoru húsi, samtals 14. Rúmanýting undanfarin ár hefur að jafnaði verið 80% sem þýðir að deildirnar eru yfirfullar langtímum saman.

Nú höfum við verið nauðbeygð að fækka plássum í 6 í hvoru húsi, eða í 12 samtals, vegna skorts á hjúkrunarfræðingum.

Síðustu 5 ár hefur bæði sjúklingum og legudögum fjölgað á báðum gjörgæsludeildunum. Mikill meirihluti þeirra er vegna bráðainnlagna. Há rúmanýting bitnar óhjákvæmilega á valkvæðum innlögnum og kemur fram í niðurfellingum aðgerða með tilheyrandi álagi og óhagræði fyrir sjúklinga. Því fylgir veruleg fjárhagsleg sóun svo og truflanir á sjúklingaferlum innan spítalans. Þannig hefur niðurfelldum hjartaaðgerðum fjölgað ár frá ári, voru 48 árið 2017, eða 36% allra hjartaaðgerða. Dæmi er um að hjartaaðgerð tiltekins sjúklings hafi verið frestað 6 sinnum. Til viðbótar hefur erlendum ríkisborgurum á gjörgæslu fjölgað umtalsvert, eða um rúmlega 150% síðustu 5 ár, og gjörgæsludögum þeirra um meira en 200%.

Sjá grein eftir Sigurberg Kárason í Læknablaðinu