Starfa ekki á rammasamningi eftir áramót

Þórarinn Guðnason formaður Læknafélags Reykjavíkur segir að nánast allir sérgreinalæknar sem hafi verið á rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands hafi tilkynnt að þeir ætli ekki að starfa samkvæmt samningnum frá og með áramótum. María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga telur ekki líklegt að búið verði að semja um áramótin.   

Samningurinn rennur út um áramótin en ákvæði er í honum sem gerir kleift að framlengja hann um mánuð í senn. Þórarinn segir að það ákvæði hafi verið sett í samninginn til að tryggja áframhaldandi starfsemi á meðan verið sé að semja og þegar einhverjar vikur vanti upp á að náist saman. Ekki sé hægt að reka læknisþjónustu mánuði í senn. 

„Svoleiðis skammtímasamningar eru bara ekki góðir, hvorki fyrir sjúklingana eða okkur. Við getum þá ekki gefið sjúklingunum tíma fram í tímann. Við erum mörg bókuð hálft ár fram í tímann. Og þar af leiðandi er mjög óhentugt að hafa skammtímasamninga. Þannig að það sem við tilkynntum Sjúkratryggingum Íslands um fyrir 1. október er að 333 læknar, næstum því allir læknar sem eru á þessum samningi, að við myndum ekki vinna á útrunnum samningi" segir Þórarinn í viðtali við RÚV.

Hægt er að hlusta á viðtal RÚV við Þórarinn HÉR