Sjálfstætt starfandi sérfræðilæknar í Kveik

Kveikur, fréttaskýringaþáttur Ríkissjónvarpsins, fjallaði um deilu sjálfstæðra sérfræðilækna við ríkið í gær. Samningsleysi þeirra og hvernig málin nú hefðu lítið sem ekkert breyst í þrjátíu ár. Þáttastjórnandinn, Þóra Arnórsdóttir, velti því upp hvort hún gæti endursýnt þáttinn að þrjátíu árum liðnum.

„Í áratugi hefur verið knúið á um breytingar á því kerfi sem sjálfstætt starfandi sérgreinalæknar starfa eftir. Ástæðan er fyrst og fremst sú að heilbrigðisyfirvöld hafa litla stjórn á því, bæði útgjöldum og vexti. Og nú þegar búið er að ákveða að breyta því er mótstaðan mikil,” segir í frétt Kveiks undir fyrirsögninni: Læknar í einkarestri vilja engin mörk.

Í fréttinni segir: „Greiðslur til sjálfstætt starfandi sérfræðinga voru um 4,7 milljarðar árið 2000. Árið 2019 voru þær orðnar 10,3 milljarðar miðað við núvirtar tölur 2021. Þessi 120% útgjaldaaukning á sér auðvitað ýmsar skýringar: ný tækni hefur komið fram, töluverð mannfjölgun, hærra hlutfall eldri borgara sem þurfa meiri þjónustu, sem endurspeglast í því að heimsóknir til sérfræðinga voru 40% fleiri árið 2019 en árið 2000, þótt sérfræðingunum hafi aðeins fjölgað um 14%.“

Þátturinn skoðaði marga anga. Greint var frá því að Sjúkratryggingum Íslands beri að sjá til þess að sjúkratryggðir Íslendingar komist í myndgreiningar – röntgen og sneiðmyndir. Tvö fyrirtæki séu ráðandi á markaðnum: „Við yfirferð á sjö ára tímabili kemur í ljós að fyrirtækin tvö hafa greitt út tæpan einn og hálfan milljarð króna í arð á tímabilinu. Arðsemi eigin fjár á þessu árabili er 87,4-99,7% á ári.“ Nánar verði fjallað um arðgreiðslur myndgreiningarfyrirtækjanna á næstu dögum. Þá var dregið fram í kvöldfréttum að stofulæknar íhugi hóti aðgerðum.

Umræða um þáttinn skapaðist á Facebook-síðu Ragnars Freys Ingvarssonar, umsjónardeildar COVID-göngudeildarinnar og gigtarlæknis í Klíníkinni. Þóra Arnórsdóttir, þáttastjórnandinn, tjáir sig þar: „Já, það eru margir vinklar á þessu máli. Sem sjúkratryggður borgari, eru spurningarnar þó aðallega tvær: a) Hvernig á að leysa þessa deilu? og b) Hvernig verður það gert með sem hagkvæmustum hætti fyrir skattborgara?“ 

Mynd/Skjáskot/RÚV-Kveikur

Sjá kveiksþátt hér.
Sjá kvöldfétt Sjónvarpsins hér.
Sjá frétt á vef RÚV hér.