Drög að frumvarpi heilbrigðisráðherra um breytingar á Sjúkratryggingum má nú finna í samráðsgátt stjórnvalda. Þær eru gerðar til að skýra betur skyldur Sjúkratrygginga Íslands til að byggja ákvarðanatöku á gagnreyndri meðferð og faglegu og hagrænu mati.
Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur, segir breytingarnar sem lagðar eru til koma læknum á óvart. Aðeins séu rúm tvö ár frá því að nýr samningur var undirritaður vegna þjónustu sérgreinalækna en þá höfðu samningar verið lausir í fimm ár.
„Við sáum þetta bara í samráðsgátt í seinustu viku og okkur var ansi brugðið að sjá þarna hluti sem við töldum að höfðu verið leiddir til lykta á löngum samningafundum hér fyrir tveimur árum síðan. Þarna eru mörg atriði aftur snúin en núna ekki í formi samnings heldur í formi lagatexta og lagafrumvarps.“
Þannig feli frumvarpið í sér ýmsar breytingar sem læknar séu ósáttir við.