Merkilegt að læknar séu ánægðir í starfi

Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir sem vann könnun á líðan og starfsaðstæðum íslenskra lækna, segir að það verði að vinna að úrbótum á starfsumhverfi lækna hér á landi. Í könnuninni kemur fram að læknar vinni jafnvel meira en 80 klukkustundir á viku, telji starfsstöðvar heilbrigðiskerfisins vera undirmannaðar og að meirihluti lækna telji sig vera undir of miklu álagi.
 

„Það þarf að vinna í úrbótum á starfsumhverfi lækna þannig að það séu fundnar leiðir til að draga úr álagi og veita þeim stuðning,“ segir Ólafur Þór. „Það þarf einnig að skilgreina betur starfssvið þeirra.“

Á því tólf mánaða tímabili sem spurt var um hefur um það bil helmingur lækna hugleitt að láta af störfum. Þrátt fyrir það segist ríflega helmingur lækna vera ánægður með starfsumhverfi sitt og stjórnun þeirrar deildar sem þeir starfa í. Ólafi Þór þykir þetta vera áhugavert. „Mér finnst nokkuð merkilegt að læknar eru nokkuð ánægðir í starfi, þrátt fyrir að vera með mörg einkenni kulnunar.“

Hér má sjá viðtal RUV við Ólaf Þór