Már ósammála um að rannsaka þurfi Landakotssmitið sem atvik

„Ég er mjög óánægður með fregn sem borist hefur frá landlækni um að þetta sé atvik sem þurfi að rannsaka,“ segir Már Kristjánsson,  yf­ir­lækn­ir á smit­sjúk­dóma­deild Land­spít­al­ans og formaður far­sótt­ar­nefnd­ar Land­spít­ala í Morgunblaðinu í dag. Hann vísar þar til orða Kjart­ans Hreins Njáls­sonar, aðstoðarmanns land­lækn­is, sem sagði á mbl.is í fyrradag, að hópsmitið á Landakoti yrði mögu­lega til­kynnt sem al­var­legt at­vik. Það yrði það þá rann­sakað sem slíkt. Yfir 80 eru smitaðir sem rekja má til Landakots. Um 50 sjúklingar og 30 starfsmenn hafa smitast.

Már segir að það gangi  gegn því sem sagt hefur verið um samstöðu í baráttunni við þennan faraldur að ráðast í slíka rannsókn. „Á farsóttartímum er mikilvægast að rekja smit – rakning er ígildi rannsóknar og rakning er tólið sem við höfum til að finna út hvað er á seyði,“ segir hann við Morgunblaðið.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, var í Kastljósi í gærkvöldi og benti á að hlutfall þeirra starfsmanna sem sýkist sé margfalt lægra en í samfélaginu. Það hafi því gengið vel. „En í þessu tilfelli hefur það gerst sem við óttuðumst mest að sýking hefur komið upp hjá þessum viðkvæma hópi.“

Hann sagði öllum steinum velt við til að fyrirbyggja að svona atvik komi upp aftur. Ekkert bendi til annars en starfsfólk hafi gert sitt allra besta. Spurður hvernig það megi vera að smitaðir einstaklingar hafi verið sendir á önnur hjúkrunarheimili sagði Páll að ekki hafi verið um ásetning að ræða, heldur óvart.

„Fram að þessu höfum við ekki skimað nema að ástæða sé til. Sú ástæða sé einhvers konar einkenni eða saga um útseningu. Ein ástæðan er sú að meira að segja skimun er ekki fullgild. Fólk getur verið orðið smitandi og að stefna í það að veikjast örfáum klukkutímum eftir að skimun var neikvæð,“ sagði hann.

„Við höfum því meira byggt á sóttvörnum og að brýna fyrir fólki að fylgjast með einkennum og fylgst með einkennum hjá einstaklingum.“ Þegar einstaklingarnir hafi útskrifast hafi þeir ekki haft nein einkenni eða vísbendingar um að hætta gæti af þeim stafað.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði í Bítið á Bylgjunni í morgun að ekki væri enn búið að ná utan um hópsýkinguna á Landakoti.

Greint var frá því 25. október að Landspítali hafi verið færður á neyðarstig, samkvæmt viðbragðsáætlun spítalans í fyrsta sinn eftir að núgildandi viðbragðsáætlun spítalans tók gildi árið 2006. Ástæðan sé klasasmitið á Landakoti meðal sjúklinga og starfsfólks „sem teygir anga sína víðar.“ 

Mynd/Skjáskot/mbl.is

Már á mbl.is

Kjartan Hreinn á mbl.is

Páll í Kastljósi

Þórólfur á Vísi og Bylgjunni.

Neyðarstig Landspítala.