Líf­tækni­lyf til bjarg­ar - Ragnar í Morgunblaðinu

Meðhöndlun sýkinga vegna kórónuveirunnar hefur tekið miklum framförum frá því að veiran kom fyrst upp. Þetta segir Ragnar Freyr Ingvarsson, gigtar- og lyflæknir, í Morgunblaðinu í dag. Eins og þekkt er stýrði hann læknateymi sem fór fyrir COVID-19-göngudeildinni hér á landi. 

Í Morgunblaðinu segir: „Fleiri lyf hafa bæst í sarpinn og hefur betri þekking á sjúkdómnum veitt læknum tök á að ákvarða hvaða lyf beri að nota eftir því hve langt sjúkdómurinn hefur þróast í fólki. Til þessa hafa verið notuð veirulyf en einnig hafa líftæknilyf gefið góð fyrirheit. Er þá ótalið veirulyfið Remdesivir sem kom til landsins fyrr í mánuðinum en ekki hefur verið þörf á notkun þess enn sem komið er.“

Morgunblaðið vitnar í nýjasta tímarit Læknablaðsins þar sem segir enn fremur að eitt líftæknilyfjanna, Tocilizumab, hafi gefið góða raun hjá sjúklingi sem var með öndunarbilun á gjörgæsludeild Landspítalans. Ragnar segir í Mogganum að lyfið sé notað í meðhöndlun sjúklinga með veiruna.

„Ég hugsa að ef sá maður hefði ekki fengið þessa meðferð hefði honum vegnað verr en raun ber vitni. Hversu miklu verr ætla ég ekki að segja til um,“ segir hann þar.

 Úrdráttur af fréttinni er á mbl.is, en fréttin í heild sinn í Morgunblaðinu.

Fræðigreinina úr Læknablaðinu má lesa hér.

 

Mynd/Læknablaðið