Landakotssmitin með því alvarlegasta - Landlæknir í Kastljósi

Landspítali er í megindráttum sammála niðurstöðum umbótaskýrslu landlæknis um hópsýkingu á Landakoti. Þetta kemur fram í yfirlýsingu spítalans á vef hans.

„Landspítali harmar þann atburð og afleiðingar hans. Skýrsla embættisins er ítarleg og það er mat Landspítala að niðurstöður embættisins séu í megindráttum samhljóma niðurstöðu innri athugunar spítalans, en hún var gerð strax í kjölfar atburðarins og kynnt opinberlega í nóvember 2020.“

Alma D. Möller landlæknir fór yfir niðurstöður embættis síns sem það kynnti 15. júní í Kastljósi Ríkissjónvarpsins um kvöldið. 

Hún sagði að það hefði þurft að gera miklu betur á Landakoti. Hún sagði sóknarfæri almennt í íslensku heilbrigðiskerfi að reglum sé fylgt eftir. Aldrei sé hægt að fullyrða hvort hefði verið hægt að koma í veg fyrir smit milli hólfa en „auðvitað hefði verið betra að ráðast í að skima allan spítalann strax.“

Alma sagði rétt að húsnæðið hafi ekki unnið með hólfaskitpingunni. „En niðurstaðan er að hægt var að gera betur og það er mjög mikilvægt að horfast í augu við það.“

Niðurstaðan er að atvikið sé eitt það alvarlegasta sem komið hefur upp í heilbrigðisþjónustu hér á landi. Smit upp hjá 99 starfsmönnum og sjúklingum spítalans, 13 sjúklingar á Landakoti létust. „Athugun embættisins einskorðast við hópsýkinguna á Landakoti en ljóst er að smit dreifðust á aðrar heilbrigðisstofnanir, þar á meðal Reykjalund og Sólvelli. Heildarfjöldi smitaðra var 150 og andlát voru 15.“

Í niðurlagi yfirlýsingar Landspítala segir: „Við hópsýkinguna á Landakoti fékkst flest af best menntaða, reyndasta og færasta starfsfólki Landspítala og það á sama tíma og viðbragði vegna farsóttarinnar var stýrt á öllum starfstöðvum spítalans. Við slíkar aðstæður er nánast óhjákvæmilegt annað en að tímabundið komi upp erfið staða þegar viðkvæm starfsemi er endurskipulögð með hraði. Starfsfólk starfaði af heilindum og sem einn maður að nauðsynlegu viðbragði og úrbótum við ótrúlega erfiðar aðstæður og á mikið hrós skilið fyrir vikið. Þeim til órofins stuðnings var sérhæft starfsfólk farsóttarnefndar og sýkingavarna sem störfuðu í daglegu samráði við viðbragðsstjórn spítalans. Einnig kom fólk frá öðrum deildum og úr bakvarðasveit heilbrigðiskerfisins og veitti stuðning og mikilvæga líflínu þegar stór hluti starfsfólks fór í sóttkví og þurfti að glíma við veikindi og sýkingar. Þessu fólki ber öllu að þakka.“

  • Lesa má skýrslu landlæknis hér
  • Lesa má skýrslu Landspítala hér