Heilbrigðiskerfi þar sem ríkir heildarsýn

Íslenska heilbrigðiskerfið hefur í alltof langan tíma einkennst af skorti á yfirsýn. Sá skortur á yfirsýn er hvorki góður fyrir sjúklingana né samfélagið í heild, og leiðir af sér of mikla þjónustu á sumum sviðum og biðlista á öðrum stöðum.

Móta þarf stefnu fyrir heilbrigðiskerfið allt. Ábendingar þess efnis komu meðal annars fram í skýrslu McKinsey frá árinu 2016 (Lykill að fullnýtingu tækifæra Landspítalans) og í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í febrúar 2018 (Sjúkratryggingar Íslands sem kaupandi heilbrigðisþjónustu frá febrúar), auk þess sem gerð heilbrigðisstefnu felur í sér viðbrögð við ákalli samfélagsins um skýra heildarsýn í heilbrigðismálum.

Með gerð heilbrigðisstefnu svörum við spurningum á borð við þær hvernig heilbrigðiskerfi við viljum að í boði sé á Íslandi, hverjir veiti þjónustu, hvenær og hvar og hvaða gildi við viljum að heilbrigðiskerfið okkar endurspegli. Hingað til hefur þessum spurningum verið ósvarað, og kerfið þar af leiðandi verið brotakennt. Nú er unnið að gerð heilbrigðisstefnu innan velferðarráðuneytisins, sem ég hyggst leggja fyrir Alþingi á komandi vetri.

Sjá grein á visir.is