Grein Jóns Ívars vekur viðbrögð - Jón Magnús á Vísi

Jón Magnús Jóhannesson, sérnámslæknir á Landspítalanum, segir að í grein Jóns Ívars Einarssonar, prófessors við læknadeild Harvard-háskóla, sem birtist í Morgunblaðinu í dag, sé gert lítið úr hættunni sem stafar af Covid-19 og kórónuveirufaraldrinum. 

Jón Ívar segir í greininni að segja megi að ef einstaklingur á Íslandi sýkist af Covid séu líkurnar á að deyja um 1/500. „Til að setja þetta í samhengi eru ævilíkur á að deyja af hjarta- og æðasjúkdómi u.þ.b. 1/7, í bílslysi 1/114 og sem gangandi vegfarandi 1/647,“ segir hann þar. Hann segir of langt seilst í að setja fólk í tvær skimanir og sóttkví.

„Vissulega er réttur fólks til eins eðlilegs lífs innanlands og hægt er mikilvægur en það er vandmeðfarið að þrengja að frelsi borgaranna með þessum hætti og sérstaklega ef það á að vara til langs tíma. Það er jafnframt töluverð hætta á að ef of langt er gengið, þá hætti sumir að fara eftir reglum. Þetta hefur sýnt sig bæði hérlendis og erlendis þar sem brot á sóttkví hafa leitt til hópsmita,“ segir Jón Ívar í greininni sem birtist í Morgunblaðinu á laugardag:

„Það er skynsamlegra að gæta meðalhófs og vernda lýðheilsu, og þá sérstaklega vernda viðkvæma hópa, en jafnframt að hlúa að frelsi einstaklinga og finna leiðir til að lágmarka skaðann fyrir alla,“ eru lokaorð hans. 

Jón Magnús segir ótækt að halda því fram að dánarlíkur þeirra sem fá Covid-19 hér á landi séu 1/500, líkt og Jón Ívar gerir í grein sinni, sem fjallað er um hér að neðan. Hann segir marga kosti fylgja því að halda útbreiðslu faraldursins í skefjum. Þannig megi „fletja kúrfuna“ og hægja á útbreiðslu faraldursins sem létti á álagi af heilbrigðiskerfinu.

Hann segir að þegar fáir leggist inn á spítala með Covid-19 á hverjum tíma sé hægt að fylgja sjúklingum betur eftir og fylgjast nánar með þeim. Sviðsmyndin væri önnur ef tugir tækju að leggjast inn á sama tíma.

Mynd/Skjáskot/Vísir

Sjá viðtalið við Jón Magnús á Vísi.

Hér má nálgast grein Jóns Ívars fyrir áskrifendur.