Fjögur ný líknar- og lífslokameðferðarrými á HSU

Heilbrigðisstofnun Suðurlands setur upp fjögur rými fyrir líknar- og lífslokameðferð. „Ánægjulegt er að greina frá því að Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra,hefur ákveðið að tryggja Heilbrigðisstofnun Suðurlands aukið fjármagn til að koma á fót fjórum rýmum þar sem unnt verður að veita líknar- og lífslokameðferð,“ segir Díana Óskarsdóttir, forstjóri stofnunarinnar á vef hennar.

Hún bendir á að þessi ákvörðun geri stofnuninni kleift að bæta aðbúnað sjúklinga sem þurfa á líknar- og lífslokameðferð að halda við lok lífs og aðstandenda þeirra. 

„Þetta skref er mikilvægur þáttur í þjónustu HSU sem fagnar því að fá tækifæri til að geta stutt betur við líknarþjónustu á þeim erfiða tíma sem sjúklingar og aðstandendur standa frammi fyrir þegar lífslok nálgast,“ segir hún.

Líknarrýmin verði rekin í tengslum við þau 18 rými sem rekin eru við sjúkradeildina á Selfossi. „Undirbúningsvinna mun hefjast á næstu dögum og gert er ráð fyrir að geta opnað fyrir þjónustuna á komandi mánuðum,“ segir í frétt stofnunarinnar á vefnum.

Mynd/Skjáskot/HSU