Rýrð kastað á áratuga starf - Benedikt með grein á Vísi

Stofnanirnar sem áttu að taka við starfi Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins voru ekki tilbúnar að taka við þessum skimunum. Þetta segir Benedikt Sveinsson, læknir með sérgrein í kvenlækningum.

„Úrvinnsla leghálsýna hefur verið í uppnámi. Sýni hafa verið geymd í pappakössum í þúsunda tali meðan reynt hefur verið að ná viðunandi samningi við erlenda frumurannsóknarstofu í stað þeirrar sem aflögð var hjá Leitarstöðinni. Niðurstöður svara hafa því borist seint og illa, sem augljóslega stríðir gegn gildandi reglum um skimanir. Er þessi staða sérstaklega bagaleg í ljósi þess að Læknafélag Íslands ásamt öllum helstu fagfélögum og ráðum sem um málið hafa fjallað hafa mælt gegn því að samið yrði við erlenda rannsóknastofu til að greina leghálssýnin,“ segir hann.

„Við þetta má bæta að það hefur heldur ekki verið gengið frá fullkomnu tölvueftirlitskerfi í heilsugæslunni til að fylgja þessum málum eftir.“

Benedikt gagnrýnir orð heilbrigðisráðherra um að þjónustan verði „aðgengilegri, ódýrari og öruggari“.

„Sárast er þó að í þessu ferli hefur rýrð verið kastað á meira en hálfrar aldar farsælt starf Leitarstöðvarinnar. Stjórnvöld ættu ekki að gleyma því faglega starfi, sem þar hefur farið fram auk þess sem það er lífsnauðsynlegt heilbrigðiskerfinu að sú þekking sem þar hefur orðið til glatist ekki.“

Mynd/Skjáskot/Vísir

Sjáðu greinina á Vísi hér.