Bóluefni í aðalhlutverki á fundi almannavarna

Fulltrúar íslenskra yfirvalda voru í vörn á fréttafundi almannavarna sem hófst nú klukkan 11:03. Spurningarnar snerust að mestu um hvers vegna ekki væri búið að tryggja landsmönnum meira bóluefni.

Ásta Valdimarsdóttir, ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins, sagði ábyrgt af ríkisstjórninni að tryggja þjóðinni ekki meira bóluefni en hún þyrfti. Hún benti þó á að sumar þjóðir eins og Norðmenn sem hafi tryggt sér mjög mikið magn og taki ríkan þátt í COVAX-samstarfinu kaupi mikið magn til að geta framselt til þróunarríkja. “Sem er afar jákvætt.”

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, stýrði fundinum, þeim fyrsta eftir að hann jafnaði sig af COVID-19. Hann benti á að veiran væri ekki sigruð fyrr en hún yrði það á heimsvísu.

Sagt er frá því á RÚV að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hafi rætt við Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, um stöðuna almennt.

Næsti fundur almannavarna verður 28. desember.

Mynd/Skjáskot/RÚV

Frétt RÚV frá upplýsingafundinum hér.

Frétt MBL um leyfi fyrir Pfizer í Evrópu hér.

Útsending frá upplýsingafundinum hér.