Domus Medica lokar - Jón Gauti í Morgunblaðinu

Læknastofur og skurðstofur í Domus Medica verður lokað frá næstu áramótum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Sagt er frá því að þar séu um 70 sérfræðingar með læknastofur. Allt frá 1966 hafi verið þar stofur og skurðstofur frá 1999. Einhverjir læknanna haldi áfram annars staðar.

„Rekstur læknastöðva hefur verið mjög þungur síðustu ár. Meðalaldur læknanna er að hækka og nýliðun hefur ekki verið jafn mikil og hún hefði þurft að vera vegna erfiðra rekstrarskilyrða. Nýting hefur því minnkað, sem íþyngir rekstrinum,“ sagði Jón Gauti Jónsson, framkvæmdastjóri Domus Medica hf.

Hann segir í Morunblaðinu komið að endurbótum á skurðstofunum og læknastofunum eftir 55 ára rekstur. „Menn treysta sér ekki í það stóra verkefni í því starfsumhverfi sem sjálfstætt starfandi læknum er gert að starfa í. Það er bæði ótryggt og óvisst. Því miður hefur lengi ríkt ákveðinn glundroði í stjórnun á heilbrigðisþjónustunni. Sú ríkisvæðingarstefna sem ríkisstjórnin hefur rekið í fjögur ár vinnur ekki með þessari starfsemi. Menn treysta sér ekki til að halda áfram í því ástandi sem hefur ríkt í stjórnun heilbrigðisþjónustunnar nokkuð lengi.“

Domus Medica hefur rekið móttöku og stofur sérfræðilækna frá 1966 og Læknahúsið hefur starfrækt skurðstofur í húsinu frá 1999. Það eru elstu einkareknu skurðstofur landsins og hafa starfað frá 1983.

Margir hafa tjáð sig um fréttina. Anna Björnsdóttir taugalæknir ritar á Facebook-síðu sína: „Sorgleg frétt en það hlaut að koma að því að rekstur læknastofa standi ekki undir sér lengur. Engir samningar við okkur síðan 2018, sá hlutur sem sjúklingur greiðir án aðkomu sjúkratrygginga hækkar og hækkar - þó heilbrigðisráðherra slái sér á brjóst og segi komugjöld í heilsugæslu hafa lækkað,“ segir hún.

Ragnar Freyr Ingvarsson, gigtarlæknir, ritar á sína Facebook-síðu í kaldhæðnum tóni: „Það er rétt að óska ráðherra heilbrigðismála til hamingju með þennan áfanga. Sjúklingar geta fagnað ákaft í biðröðum eftir þjónustu!“

Á Viljanu, vef Björns Inga Hrafnsonar, segir um málið: „Þótt Sjálfstæðisflokkurinn eigi aðild að þessari ríkisstjórn, hefur flokkurinn horft aðgerðalaus á það hvernig einkaframtakið hefur markvisst verið talað niður á þessu kjörtímabili þegar kemur að heilbrigðismálum. Forysta flokksins virðist láta sér vel líka að allri heilbrigðisþjónustu eigi að velta gegnum Landspítalann, enda þótt biðlistar lengist þar og þjónustu sé ábótavant. Ekki aðeins Domus Medica hefur fundið fyrir þessu; sama hafa aðilar á borð við Krabbameinsfélagið og Klíníkin gert, að ekki sé minnst á sjálfstætt starfandi aðila í kerfinu um allt land.“

Þá tjáði Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir sig um málið í Bítinu á Bylgjunni: „Ég tek það fram að ég er ekki með stofurekstur, ég starfa 100% á spítalanum, en þetta er að virka að mörgu leyti mjög vel saman. Þetta er mjög árangursríkt og það er lítill rekstrarkostnaður, það er að mínu mati skelfilegt ef það er murkað lífið úr þessari starfsemi, bæði hvað varðar skurðlækningar og aðrar sérgreinar úti í bæ.“

Mynd/Skjáskot/Morgunblaðið/Samsett