Bráðamóttakan stífluð - Hjalti Már Björnsson

„Staðan í innlagnarmálum er því miður mjög þung. Tugir sjúklinga bíða innlagnar á legudeildir Landspítala, en komast því miður ekki þangað og eru því vistaðir á bráðamóttökunni,“ segir Hjalti Már Björnsson, yfirlækni bráðalækninga á Landspítala. Biðtíminn eftir þjónustu sé því á köflum óhóflega langur. Fráflæðisvandinn hægi á þjónustunni.

Skilaboðin, sem sett eru fram í myndbandi á vef Landspítala, hafa falið í grýttan jarðveg sumra lækna. Hlynur Grímsson læknir metur stöðuna á Facebook-síðu sinni.

„Þetta er magnað. Og nánast engir útlendingar staddir á landinu, engin Covid-veikindi og engar virkar náttúruhamfarir í gangi. Þetta er eina sérhæfða bráðamóttakan og eina sérhæfða sjúkrahúsið fyrir 250.000 manns plús á Suðvesturlandi. Ef það væri einhver dugur í Alþingi væri búið að kalla stjórnendur og eftirlitsaðila í kerfinu akút inn til spurninga,“ segir hann þar.

Theódór Skúli Sigurðsson læknir tjáir sig þar einnig. Forstjóri spítalans og heilbrigðisráðherra hafi í skýrslu sagt að biðtíminn ætti ekki að vera meiri en 6 klukkustundir. „Hvað klikkaði?“

Landspítali hvetur til þess að fólk leyti til heilsugæslunnar eða Læknavaktarinnar ef nokkur kostur er.

Mynd/Skjáskot/Landspítali

Sjá myndband Landspítala hér.

Frétt mbl.is af stöðunni hér.

Frétt Vísis.is af stöðunni hér.