Breytt krabbameinsskimun gagnrýnd - Kristján Skúli á Stöð 2

„Tæp­lega 30.000 ein­stak­ling­ar hafa þegar skrifað und­ir áskor­un til stjórn­valda um að leiðrétta breyt­ingu á ald­urs­mörk­um kvenna sem boðaðar eru í krabba­meins­skimun,“ kemur fram í frétt á mbl.is.

Á Facebook má sjá hvernig einstaklingar hafa breytt status-mynd sinni á þann veg að þeir hafi greinst með krabbamein fyrir fimmtugt eða eigi vinkonu sem hafi gert það.

Sagt er frá því í Morgunblaðinu í dag að starfshópur sem þáverandi heilbrigðisráðherra skipaði hafi lagt til að aldursviðmiðum vegna skimunar fyrir brjóstakrabbameini yrði breytt. „Í starfshópnum voru 13 manns og skilaði hann áliti árið 2016. 

„Niðurstaða hópsins var að ekki lægju fyrir upplýsingar um að skimun skili árangri hjá konum yngri en 50 ára og eru flestar þjóðir sem hefja skimun við þann aldur. Hópurinn lagði til að viðmiðum hérlendis yrði breytt,““ segir þar orðrétt.

„Ekki liggur fyrir af hverju ekki var farið að þeirri ráðgjöf á þeim tíma,“ segir í skriflegu svari Embættis landlæknis við spurningum Morgunblaðsins.

Kristján Skúli Ásgeirsson, brjóstaskurðlæknir, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi, hafa efasemdir um að skima konur fimmtugar í stað fertugs. Ísland sé í aðstöðu að klæðskerasauma þjónustuna að hverri konu. Skoða hefði þurft hví svo fáar konur milli fertugs og fimmtugs mæti í skimun og laga verkferla. 

„[Konur á fimmutsaldri] eru oft þær sem fá illvígari sjúkdóma og verri krabbamein en konurnar sem eru eldri,“ sagði hann. 

Mynd/Skjáskot/Vísir