Af heilsu karla og kvenna

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur vakið athygli á mismun á heilsu og þörfum kynja (e. gender sensitive health). Þannig er nú viðurkennt að heilsufarsvandamál karla og kvenna eru að hluta mismunandi og að sértæk nálgun geti bætt heilbrigði. Ástæðurnar eru flóknar og geta skýrst af genum, mismunandi hlutverkum, hegðun og ímynd. Talið er brýnt að rannsaka og þróa þekkinguna frekar þannig að heilbrigðisþjónustan geti brugðist við með sértækari hætti en nú er.

Nýverið tilkynnti velferðarráðuneytið að það hefði falið Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar að útfæra tilraunaverkefni um sérstaka heilsumóttöku fyrir konur. Fram kemur í tilkynningunni að þar verði sinnt sértækum heilbrigðisvandamálum kvenna auk ráðgjafar, þar á meðal til kvenna sem eru í viðkvæmri stöðu. Skilja má að ljósmæður verði lykilaðilar í þessari móttöku en vitað er að slík starfsemi hefur gefist vel víða erlendis.

Það er ekki síður mikilvægt að huga sérstaklega að heilsu karla. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin vakti nýverið athygli á sértækum heilbrigðisvandamálum karla með birtingu skýrslu sem tekur til Evrópulanda. Þekkt er að karlar lifa skemur en konur og er munurinn umtalsverður víða um álfuna. Hér á landi er munurinn 3,4 ár sem er minni en í flestum öðrum löndum og hefur heldur dregið saman með kynjunum.

Lesa má pistil landlæknis hér