Yfirlýsing frá LÍ vegna fréttaflutnings um landsbyggðalækna

Læknafélag Íslands (LÍ) lýsir miklum áhyggjum yfir stöðu heilsugæslunnar á landsbyggðinni.

Um alllangt skeið hefur staðan verið sú að heilsugæslustöðvum gengur illa að manna stöður heilsugæslulækna. Um þennan vanda var fjallað á málþingi Félags ísl. heilsugæslulækna í byrjun þessa mánaðar http://www.ruv.is/frett/heilsugaeslur-berjist-um-verktakalaekna. Það var einnig gert í gær á fundi Landssamtaka heilbrigðisstofnana, sem haldinn var á Egilsstöðum í gær, http://www.ruv.is/frett/daemi-um-ad-verktakalaeknar-fai-220-thusund-a-dag.

Heilsugæslustöðvar hafa gripið til þess ráðs vegna þessa vanda að manna stöður lækna tímabundið, oftast í viku í senn með læknum sem sinna þá læknisstörfunum sem verktakar. LÍ telur þessa þróun varasama ekki síst m.t.t. samfellu þjónustu við íbúa viðkomandi heilsugæslusvæða. Þessi staða varpar ljósi á undirliggjandi skort sem er á læknum á Íslandi, sérstaklega sérfræðingum í heimilislækningum.

LÍ telur mikilvægt að hefja umræðu um þessa þróun í heilsugæslunni, hvernig spyrna megi við fótum, og snúa þróuninni við þannig að aftur takist að fá lækna til starfa í lengri tíma í heilsugæslu utan Reykjavíkur.

LÍ ritaði heilbrigðisráðherra bréf  vegna þessa máls 7. mars sl. og lýsti sig reiðubúið til viðræðna um mögulegar aðgerðir.