Vilja að heilbrigðisráðherra dragi skýrslu um dánaraðstoð til baka

Starfsmenn líknarráðgjafateymis Landspítala gerðu alvarlegar athugasemdir við skýrslu heilbrigðisráðherra um dánaraðstoð sem birt var 4. september 2020.

„Athugasemdirnar eru það alvarlegar að okkur þykir nauðsynlegt að skýrslan sé dregin til baka og innihald hennar leiðrétt enda gengur skýrslan í berhögg við skýrslu ráðherra um Framtíðarskipan líknarþjónustu á Ísland og líknarþjónustu heilbrigðiskerfisins almennt,“ segir í bréfi teymisins til heilbrigðisráðherra þann 14. september. Athugasemdirnar teymisins má lesa hér fyrir neðan.

Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, tekur undir að heilbrigðisráðherra verði að draga skýrsluna til baka. „Í núverandi formi er hún til þess fallin að auka á upplýsingaóreiðu og andstæð þeim faglegu og vönduðu vinnubrögðum sem hlýtur að vera eðlilegt að krafist sé af heilbrigðisráðuneytinu.“

Kristín Lára Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur í líknarráðgjafateymi Landspítala, segir að teymið hafi fengið fund með aðstoðarmanni ráðherra og skrifstofustjóra ráðuneytisins og flutt sitt mál.

„Þeirra svar var að ekki væri hægt að breyta skýrslunni og hún stæði óbreytt en skrifstofustjórinn samþykkti að kanna hvort hægt væri að breyta tilvitnunum í heimildir þar sem klárlega var vitnað rangt í klínískar leiðbeiningar um líknarmeðferð. Það var ekki gert þrátt fyrir að ég hafi ítrekað þessa ósk við þau í tölvupósti sem ég fékk ekki svar við,“ segir hún.

Kristín Lára, Sigríður Gunnarsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hallgrímsdóttir og Vilhelmína Haraldsdóttir skrifuðu einnig grein í Fréttablaðið síðustu helgi janúarmánaðar undir yfirskriftinni: Að lifa og deyja með reisn. Þær segja: „Þegar ljóst er að andlát er yfirvofandi er markmiðið alltaf að lina þjáningar en ekki að stytta líf.“ Mikilvægt sé að auka umræðu um meðferðarmarkmið.

„Á sama hátt þarf að ræða hvenær hætta skuli meðferð, til dæmis öndunarvélameðferð á gjörgæsludeildum þegar ekki er von um bata. Samkvæmt heilbrigðislögum á sjúklingur rétt á bestu mögulegu meðferð sem hægt er að veita hverju sinni. Hann á líka rétt á að hafna meðferð. Það er hins vegar bæði ólöglegt og stangast á við siðferðileg gildi að deyða mann,“ segir í greininni.

Umræðan um dánaraðstoð eða líknardráp sé afar skammt á veg komin á Íslandi og komi fyrst og fremst frá þeim hagsmunasamtökum sem berjast fyrir lögleiðingu.

„Mikilvægt er að umræðan snúist um hvernig heilbrigðisþjónustu við veitum og að hún byggist á læknisfræðilegum og siðfræðilegum grunni en ekki eingöngu á lögfræðilegri nálgun.“

Þær Kristín Lára Ólafsdóttir, sérfræðingur í líknarhjúkrun í líknarráðgjafateymi Landspítala, og Ingrid Kuhlman, hjá Lífsvirðingu, voru í viðtali í Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni þann 1. febrúar. Kristín Lára sagðist ekki persónulega getað hjálpað fólki að deyja. Heilbrigðisstéttir eigi að viðhalda lífi. Heyra má viðtalið hér.

Athugasemdirnar teymisins við Skýrslu heilbrigðisráðherra um dánaraðstoð voru:

1. Líknarmeðferð er sögð ein tegund dánaraðstoðar án nokkurra skýringa, röksemda né að vitnað sé í heimildir. Líknarmeðferð getur augljóslega alls ekki fallið undir skilgreininguna um dánaraðstoð. Hugtakið líknarmeðferð á alls ekki heima í þessari skýrslu um dánaraðstoð. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) mælir með því við öll aðildarríki sín að líknarmeðferð sé hluti af almennri heilbrigðisþjónustu. Í skilgreiningu WHO kemur fram að dánaraðstoð er ekki hluti af líknarmeðferð. 

2. Í fjórðu greinaskilum í inngangskafla er ranglega farið með notkun heimildar nr. 2, þar sem vísað er í skilgreininguna um líknarmeðferð. Þar er bætt við tveimur setningum, þeirri fyrstu og síðustu og þannig er látið að því liggja að þær tilheyri skilgreiningunni.  (Bls. 8.)

3. Orðið dánaraðstoð er notað fyrir enska hugtakið euthanasia þó það sé ekki viðtekin þýðing í íslensku. Orðið er loðið og greinilega ætlað til þess að nota „fallegra orð“ en líknardráp sem hingað til hefur verið notað. Þetta nýyrði þarf meiri umræðu áður en það er notað í opinberum skýrslur. Lífsrof samanber þungunarrof væri ef til vill orð sem ætti að hugleiða.

4. Notkun orðanna óbein og bein dánaraðstoð, lífsnauðsynleg meðferð og meðferð sleppt, sýna algjöran skort á innsæi um ákvarðanatöku í heilbrigðisþjónustu. Á árum áður var oft talað um beint og óbeint líknardráp en það er löngu hætt. Ákvarðanir um meðferð við undirliggjandi ástandi eða meðferð sem miðast einungis að einkennum viðkomandi eru alltaf teknar í samræmi við sjúkdómástand viðkomandi og ætlaðan árangur án þess að skaða viðkomandi meira en orðið er. Það er því aldrei um „óbeina“ aðstoð að ræða.

5. Ekki er vitnað í Lög um réttindi sjúklinga þegar rætt er um rétt lögráða einstaklinga til að afþakka meðferð.