Viðskiptaráð leggst gegn reglugerð heilbrigðisráðherra

„Viðskiptaráð leggst gegn því að reglugerðin verði staðfest og hvetur ráðherra til að ná samningum á grundvelli tímabærra þarfa- og kostnaðargreininga,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs Íslands við drög að reglugerð heilbrigðisráðherra um endurgreiðslu kostnaðar vegna sjálfstætt starfandi sérgreinalækna.

Viðskiptaráð segir liggja ljóst fyrir að áform ráðherra með reglusetningunni byggist á veikum grunni þar sem ekki hefur farið fram heildstæðar og ítarlegar þarfa- og kostnaðargreiningar á þjónustunni. Það bendir á að Læknafélag Íslands hafi tekið fram að gjaldskráin hafi ekki hækkað frá 1. janúar 2020 á meðan t.d launavísitalan hefur hækkað 11%.

„Í ljósi þessa er skiljanlegt að umræddir læknar hafi neyðst til þess að rukka aukalega ofan á gjaldskrá SÍ til að standa straum af kostnaði. Í stað þess að uppfæra gjaldskrána á grundvelli réttra upplýsinga eða fá aðila að samningsborðinu á grundvelli sambærilegrar viljayfirlýsingar og gerð var árið 2013 er með fyrirliggjandi reglugerðardrögum lagður grunnur að tvöföldu heilbrigðiskerfi,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs á frumvarpinu.

Áformin auki líkur á að hér á landi verði ekki boðið upp á tiltekna þjónustu enda muni hún ekki standa undir sér, eða þá að hún verði einvörðungu í boði án greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga. „Þar með mun almenningur bera hærri kostnað sem getur beinlínis skert aðgengi, sérstaklega lágtekjuhópa, að heilbrigðisþjónustu.“ Það gangi að mati Viðskiptaráðs í berhögg við markmið laga um sjúkratryggingar nr. 112/2008 um að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag ásamt því að stuðla að rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni heilbrigðisþjónustu og hámarksgæðum hennar.

Sjáðu frétt Viðskiptaráðs hér.

Sjáðu umsögnina í heild hér.

Reglugerðin sjálf og aðrar umsagnir hér.