Við áramót


Árið 2022 hefur verið viðburðaríkt og skemmtilegt hjá Læknafélagi Íslands (LÍ). Undirtónninn er þó alvarlegri en oft áður, enda búa læknar við gríðarlegt og vaxandi vinnuálag og manneklu, auk þess að áhrifa COVID faraldursins – og frjálsveltis á árunum í aðdraganda hans - gætir enn með vaxandi biðlistum og miklum veikindafjarvistum lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks.

LÍ hefur verið ötult að benda á þennan vanda, sem og á þær lausnir sem blasa við, bæði til lengri og skemmri tíma. LÍ hefur talað fyrir álagsgreiðslum til lækna vegna manneklu og vanmannaðra starfsstöðva. Einnig hefur LÍ talað fyrir hvötum til að manna stöður utan höfuðborgarsvæðisins, m.a. niðurfellingu námslána, betri greiðslum fyrir þá miklu bindingu og vaktabyrði sem oft er krafist af læknum í strjálli byggðum, endurvakningu læknabústaðanna, bættum samgöngum, sérnámi í héraðslæknunum, auknum fjarlækningum o.fl. Einnig þarf að meta grunnþörf Íslands þegar kemur að læknamönnun og gera mönnunarmódel fyrir landið allt, en innifalið í því væri skilgreining á hámarksálagi á lækni á mismunandi starfsstöðvum.

Kortleggja þarf hverja sérgrein fyrir sig og bregðast við þeim skorti á nýliðun sem augljóslega er til staðar í mörgum þeirra. Þessi viðamikla vinna er hafin í heilbrigðisráðuneytinu, m.a. í samvinnu við LÍ, og gerir félagið ráð fyrir að eiga áfram á nýju ári sæti við það borð. LÍ hefur þegar unnið mannaflaspá fyrir lækna á Íslandi fram til ársins 2040. Miðað við hana þarf að fjölga læknanemum við Háskóla Íslands (HÍ) töluvert til að landið muni ekki búa við sívaxandi læknaskort á því tímabili. Læknadeild HÍ er með fjölgunina til skoðunar, en mikilvægt er að möguleg fjölgun nema komi ekki niður á gæðum námsins. Horfa þarf af alvöru til nýrra tækifæra til verknáms læknanema sem eru lítið nýtt í dag, m.a. á starfsstöðvum sjálfstætt starfandi lækna og á sjúkrastofnunum í nágrenni við höfuðborgarsvæðið og mögulega víðar. Eins og staðan er nú stólar íslenskt heilbrigðiskerfi á að stór hópur læknanema stundi nám sitt erlendis. Án þess hóps væri læknaskorturinn hérlendis mun alvarlegri. Þessi hópur læknanema þarf að standa straum af miklum kostnaði af náminu, sem rennur til erlendra háskóla og styrkingar læknadeilda þar. Námið er ekki lánshæft nema að hluta og hlýtur lágmarkskrafan að vera sú að læknanám erlendis sé lánshæft að öllu leyti, enda sárvantar lækna hérlendis. Að lokum telur LÍ nauðsynlegt að skoða hinn enda mönnunarvandans, þ.e. þann hóp fullnuma sérfræðilækna sem kjósa að starfa áfram erlendis eftir sérnám eða hafa jafnvel komið heim eftir lok sérnáms en flutt út aftur. Mikilvægt er að fá upplýsingar frá þessum hópi um það hvað þurfi til að þau geti hugsað sér að flytja heim eða hvort þau geti alls ekki hugsað sér að snúa tilbaka og þá af hverju.

Nokkrir fleiri vinnuhópar, sem LÍ á aðkomu að, eru að störfum í heilbrigðisráðuneytinu, m.a. vinnuhópur sem mun koma með tillögur að aðgerðum til að bæta verklag í tengslum við rannsókn alvarlegra atvika í heilbrigðiskerfinu og vinnuhópur sem gera á tillögur að skýrara verklagi og betri nýtingu á tíma lækna þegar kemur að vottorðagerð. LÍ er einnig aðili að viðbragðsteymi um bráðaþjónustu á Íslandi, en skýrsla þess hóps mun væntanlega liggja fyrir á næstu vikum.

LÍ hefur beitt sér á fleiri sviðum á árinu þegar kemur að starfsumhverfi lækna. Aðalfundur LÍ sendi frá sér ályktun þar sem skorað er á heilbrigðisráðherra að gera sjúkraskrár aðgengilegar öllum þjónustuveitendum á landinu í gegnum einn miðlægan, óháðan gagnagrunn. Formaður og stjórnarmenn LÍ hafa skrifað greinar og veitt viðtöl um rafrænt starfsumhverfi lækna, sem veruleg brotalöm er á í dag, og hugmyndir lækna að úrbótum þar á til að tryggja betur öryggi sjúklinga og spara læknum ómældan tíma. Á nýju ári hefur störf nýr starfshópur LÍ um rafræna sjúkraskrá til að móta stefnu út frá sýn stéttarinnar á rafrænt starfsumhverfi okkar til framtíðar. LÍ hefur einnig vakið athygli á fleiri aðgerðum sem hægt væri að ráðast í til að nýta betur tíma lækna, m.a. að skoða fýsileika þess að stofna námsbraut/-ir fyrir aðstoðarfólk lækna að erlendri fyrirmynd, auk þess að bæta verkferla og fyrirkomulag teymisvinnu við aðrar heilbrigðisstéttir.

Á árinu var undirrituð viljayfirlýsing framkvæmdastjóra lækninga á Landspítala, LÍ, Félags sjúkrahúslækna og Fagráðs Landspítala um gerð starfsáætlana fyrir sérfræðilækna spítalans. Hugmyndin er að skilgreina betur eðlilegt álag í starfi og eðlilegt magn og eðli verkefna, með það fyrir augum að sérþekking lækna nýtist sem best. Sérfræðilæknar hverrar sérgreinar munu fá tækifæri til að taka virkan þátt í að greina þetta fyrir sína sérgrein. Einnig verður gert ráð fyrir helguðum tíma til starfsþróunar, kennslu, handleiðslu og vísindastarfa. Þetta verkefni mun fara af stað af fullum krafti á nýju ári. Ef vel tekst til verður næsta skref að móta starfsáætlanir fyrir almenna lækna og einnig fyrir starfsstöðvar lækna utan Landspítala.

LÍ hefur á árinu bent á fleiri atriði sem betur mega fara í starfsumhverfi lækna. LÍ hefur gagnrýnt óhóflegt álag á heimilislækna í tengslum við skilaboð í gegnum Heilsuveru, en þau virðast ekki hafa valdið neinum samdrætti í símtölum og komum á heilsugæslu heldur orðið hrein viðbót. Heilbrigðisstofnun Norðurlands hefur nú takmarkað aðgang að skilaboðakerfinu við virka daga milli 7 og 18. LÍ bindur vonir við frekari viðbrögð við álaginu og stýringar á kerfinu á nýju ári. Einnig hefur LÍ ítrekað bent á nauðsyn þess að skilgreina hámarskfjölda íbúa sem skrá má á hvern heimilislækni til að tryggja gæði og samfellu í þjónustunni og fylgja þar m.a. fordæmi Svía sem nýverið ákváðu slíkan hámarksfjölda. Sambærileg viðmið eru til staðar í Danmörku og Noregi.

Ýmis ný verkefni eru í bígerð hjá LÍ á nýju ári. Má þar nefna endurvakningu á trúnaðarmannakerfi LÍ á starfsstöðvum lækna um allt land. Dögg Pálsdóttir framkvæmdastjóri LÍ skrifaði grein í desemberblað Læknablaðsins um þetta verkefni þar sem markmiðum þess og hlutverki trúnaðarmanna er lýst. LÍ bindur vonir við að trúnaðarmannakerfi muni veita aukna yfirsýn yfir þær áskoranir sem læknar standa frammi fyrir í sínum daglegu störfum og í samskiptum við vinnuveitendur og þar með styrkja og flýta viðbragði LÍ ef félagsmenn telja á sér brotið með einhverjum hætti.

Samhliða þessu mun framkvæmdastjórn félagsins halda áfram að heimsækja lækna utan höfuðborgarsvæðisins á komandi ári. Árið 2022 heimsóttu formaður og framkvæmdastjóri LÍ lækna á Selfossi, Hvolsvelli, Vík í Mýrdal, Höfn í Hornafirði, Reyðarfirði, Neskaupstað, Egilsstöðum, Vopnafirði, Raufarhöfn, Húsavík, Akureyri, Siglufirði, Sauðárkróki, Hvammstanga og Búðardal. Í þessum heimsóknum fékkst mikil og góð innsýn í starfsaðstæður lækna úti á landi sem og gagnvart framtíðarhorfum í mönnun. Þar er útlitið víða mjög dökkt. Á nýju ári verður heimsóknunum haldið áfram, farið á þá staði sem eftir eru, m.a. Ísafjörð, Borgarnes, Akranes, Vestmannaeyjar og Suðurnes. Einnig er áformað að heimsækja starfsstöðvar lækna á höfuðborgarsvæðinu, bæði sjálfstætt starfandi lækna og lækna í opinberri þjónustu.

Kjaramál lækna hafa verið ofarlega á baugi undanfarna mánuði og þá sérstaklega áframhaldandi samningsleysi sjálfstætt starfandi lækna við Sjúkratryggingar Íslands, sem staðið hefur frá 1. janúar 2019. Einingaverð hefur staðið í stað frá byrjun árs 2019. Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs, launavísitala rokið upp, m.a. vegna styttingar vinnuvikunnar hjá samstarfsfólki lækna, með tilheyrandi rekstarlegum áskorunum fyrir sjálfstætt starfandi lækna. Eini möguleiki þeirra til að bregðast við hefur verið að hækka komugjöld sjúklinga.

Ástandið versnar stöðugt. Nú er svo komið að kostnaðarþátttaka hins opinbera í þjónustu sjálfstætt starfandi lækna er komin úr 80% niður í u.þ.b. 50%. Í raun hefur því þegar myndast tvöfalt heilbrigðiskerfi hér á landi, þar sem þeir efnaminni þurfa jafnvel að neita sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu vegna mikils sjúklingakostnaðar sem fyrst og fremst má rekja til þessa samningsleysis, sem nú hefur staðið í fjögur ár.

Kjarasamningar LÍ eru lausir í lok mars n.k. LÍ gerði kjarakönnun meðal félagsmanna nú í aðdraganda jóla. Í könnuninni kom m.a. fram að 54% lækna hafa stundum eða oft íhugað af alvöru að hætta í starfi á liðnu ári vegna starfsumhverfis og/eða vinnuálags. Félagsmenn bera miklar væntingar til komandi samninga, finnst stéttin hafa dregist verulega aftur úr hvað dagvinnulaun varðar og að ekki sé greitt nægilega vel fyrir vaktir og sérstaklega ekki ef álag á vöktum og/eða vaktabyrði er mikil. Einnig leggja félagsmenn ríka áherslu á að tafarlaust verði bætt úr manneklunni á landsbyggðinni og að leita þurfi leiða til að laða þangað fleiri lækna til starfa.

Mönnunarvandi landsbyggðarinnar verður þó ekki eingöngu leystur í kjarasamningum. Sérstakt átak þarf til, sem m.a. verður að fela í sér auknar fjárheimildir til heilbrigðisstofnana utan höfuðborgarsvæðisins svo unnt verði með launahvötum að laða lækna til starfa úti á landi með svipuðum hætti og nágrannalönd okkar hafa gert. LÍ hefur oft kallað eftir samtali við heilbrigðisráðuneytið hvað þetta varðar en litlar ef nokkrar undirtektir fengið.

Upplýsingagjöf til félagsmanna er í sífelldri þróun. Meðal nýjunga á árinu er instagram reikningur félagsins sem félagsmenn eru hvattir til að fylgjast með. Þar birtist ýmislegt gagnlegt sem tengist starfi LÍ. Reglulega eru settar fréttir sem tengjast læknum bæði á lokaða fésbókarsíðu LÍ sem eingöngu félagsmenn fá aðgang að sem og opna fésbókarsíðu sem opin er öllum. Þá er heimasíða LÍ notuð til að miðla gagnlegum upplýsingum til félagsmanna auk þess sem félagsmenn fá með tölvupósti upplýsingar sem LÍ telur að skipti máli. Hagfræðingur LÍ vinnur reglulega tölfræði um launakjör lækna og mun hún birtast á innri vef LÍ, lis.is, undir flipanum „Greiningar og kannanir“. Þar má nú þegar sjá þróun dagvinnulauna lækna miðað við ýmsa aðra á árunum 2015-2022 og munu fleiri upplýsingar af þessu tagi birtast þar á næstu vikum. Á innri vef félagsins má einnig finna Mínervu, skráningarkerfi LÍ fyrir símenntun lækna, og eru félagsmenn hvattir til að nýta sér það.

LÍ er að sjálfsögðu virkt á mun fleiri sviðum en rakið er hér að framan. Stjórnir Fræðslustofnunar, Fjölskyldu- og styrktarsjóðs og Orlofssjóðs, auk annarra nefnda og ráða félagsins, hafa unnið ötult og óeigingjarnt starf á árinu, sem er að líða.

Veglegir Læknadagar standa fyrir dyrum í upphafi nýs árs, en þeir hefjast 16. janúar nk. Og loksins er árshátíð LÍ aftur á sínum stað, laugardaginn 21. janúar 2023, eftir langt hlé vegna heimsfaraldurs.

Fulltrúar LÍ hafa á árinu sótt fundi Alþjóðasamtaka lækna (World Medical Association - WMA), Evrópusamtök lækna (The Standing Committee of European Doctors - CPME) og Samtök sérfræðilækna í Evrópu (European Union of Medical Specialists – UEMS).

Þá brugðust félagsmenn vel við í mars sl. þegar kallað var eftir stuðningi til söfnunar WMA og CPME til styrktar læknum og heilbrigðisþjónustu í Úkraínu eftir innrás Rússa. Á örfáum dögum söfnuðust umtalsverðir fjármunir til verkefnisins auk þess sem LÍ lagði sjálft 1 m.kr. af mörkum. Samtals hefur LÍ stutt á árinu þessa söfnun með 8.894.900 kr.

LÍ hefur einnig verið aðili að yfirlýsingum WMA og CPME þar sem árásir á heilbrigðisstarfsmenn og -stofnanir í Úkraínu hafa verið harðlega fordæmdar. Samtökin hafa einnig fordæmt handtöku formanns Læknafélags Tyrklands vegna ákalls hennar um óháða rannsókn á meintri notkun tyrkneskra yfirvalda á efnavopnum og fordæmt notkun íranskra stjórnvalda á sjúkrabílum til að flytja mótmælendur þar í landi í varðhald.

Það hafa verið sönn forréttindi að gegna formennsku í Læknafélagi Íslands á árinu sem er að líða. LÍ býr að miklum mannauði, bæði meðal starfsmanna og félagsmanna, fólki sem brennur fyrir hag sjúklinga, lækna og íslensks heilbrigðiskerfis. Innan hópsins býr ótæmandi þekking, sterkar hugsjónir, skýr framtíðarsýn og fagmennska með óskoraða áherslu á öryggi og gæði þjónustu við sjúklinga.

Ég vil þakka öllum þeim sem hafa lagt sín lóð á vogarskálarnar í starfi LÍ á árinu innilega fyrir þeirra óeigingjörnu og mikilvægu störf.

Félagsmönnum og fjölskyldum þeirra sendi ég hugheilar nýárskveðjum með óskum um gleði, gæfu og góða heilsu á árinu 2023 um leið og ég þakka gott og gjöfult samstarf á árinu sem er að líða.

Steinunn Þórðardóttir, formaður LÍ