Tryggja þarf að allir landsmenn hafi heimilislækni

Félag íslenskra heimilislækna skorar á ríkisstjórnina, fjármálaráðuneytið og Alþingi að efla heimilislækningar og tryggja öllum landsmönnum sinn heimilislækni. Mikill fjöldi heimililslækna mun hætta störfum vegna aldurs á næstu árum.

Aðalfundur Félags íslenskra heimilislækna samþykkti ályktun þessa efnis þann 6. október sl. Þar segir að bæta þurfi svo um munar fjármögnun heilsugæslunnar svo hún standi undir hlutverki sínu sem fyrsti viðkomustaður og geti tekist á við öll sín mikilvægu verkefni. „Læknismönnun í heilsugæslu er víða óviðunandi og ekki horfur á að batni nema með raunverulegri viðspyrnu stjórnvalda. Ríkisstjórninni og Alþingi ber að fara að þjóðarvilja og setja heimilislækningar sem grunnstoð heilbrigðiskerfisins í raunverulegan forgang."

Bent er á að heimilislæknum fækkar á landsbyggðinni eins og kom fram í nýlegu svari heilbrigðisráðherra við spurningu Ólafs Ísleifssonar. Sama niðurstaða hafi komið fram í skýrslum ríkisendurskoðunar um heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heilsugæslu á landsbyggðinni. Búa þurfi mun betur að landsbyggðarlæknum, bæði með bættum kjörum og bættri vinnuaðstöðu. Í þéttbýli séu enn of fáir heimilislæknar ef miðað er við að hver læknir sinni 1500 manns sem þó sé ríflega áætlað. Brýnt sé að fjölga til muna sérnámslæknum og gera heimilislækningar að aðlaðandi sérgrein fyrir lækna, til að koma á móts við þessa fækkun.

Sjá frétt á ruv.is