Landspítali þarf fé eigi að vinna hratt á biðlistum eftir COVID-19

Hvorki heilbrigðisyfirvöld né landlæknir hafa komið að því að ræða hvernig Landspítali eigi að vinna á ríflega 4.000 aðgerða biðlista sem spítalinn glímir nú við. Þetta segir Vigdís Hallgrímsdóttir, forstöðumaður skurðstofu- og gjörgæslukjarna. Hún segir samtalið nauðsynlegt því eigi að ná biðlistanum niður þurfi að kosta til þess fé.

„Kvöld og helgarvinnu þyrfti til að vinna niður biðlistana. Við höfum ekki fjármagn til þess að standa straum af því og ekki gert ráð fyrir meiru í fjárveitingum til okkar,“ segir Vigdís. Deildin hafi aðeins ákveðið fjármagn til starfseminnar. Á það hafi gengið á í COVID-19 faraldrinum þótt aðgerðum hafi verið frestað,  enda launakostnaður helsti útgjaldaliðurinn. „Ég tel að við verðum að ræða stöðuna síðsumar eða í byrjun hausts.“

Samdrátturinn í skurðaðgerðum á Landspítala fyrstu fimm mánuði ársins er 16,8% miðað við sama tímabil í fyrra. Munar þar um 1.150 aðgerðum, segir Vigdís. Hún segir koma á óvart hve fáir hafi bæst við um 4.000 aðgerða biðlistann frá því að starfsemin komst í samt lag eftir fyrstu COVID-19 bylgjuna.

„Við sáum að nú eru 158 fleiri á biðlistum en voru í byrjun janúar,“ segir hún. „Við sjáum að fólki fjölgaði ekki á biðlistum í maí. Ég hafði búist við að fjölgaði meira,“ segir hún og veltir því fyrir sér hvort einhver hægagangur hafi verið í  greiningum og rannsóknum. Á spítalanum er síður horft til fjöldans á biðlistanum heldur fyrst og fremst hve lengi fólk bíði eftir aðgerð.

„Biðtíminn er núna um fjórir mánuðir. Flestir komast í aðgerð á innan við fjórum mánuðum.“ Staðan eftir sérgreinum sé þó ólík og hún hafi áhyggjur af því að fólki fjölgi á biðlistum eftir liðskiptum.

„Þar hefur fjölgað á biðlistum,“ segir hún og að um 40 fleiri bíði eftir aðgerð á hné og 50 fleiri eftir mjöðm. „Síðan fylgjumst við sérstaklega með biðtímum hjá lýtalækningum  og kviðarhols- og brjóstaskurðlækningum.“  Markvisst sé forgangsraðað og tímum endurúthlutað. „En það getur verið að við verðum að endurskoða forgangsröðina fyrir haustið.“

Vigdís segir spítalann standa sig vel þegar komi að krabbameinsaðgerðum. „Biðtíminn er ekki langur og innan við tvær vikur eftir krabbameinsaðgerð.“ Hún segir að 211 hafi beðið eftir aðgerð vegna krabbameins í upphafi árs en þeir séu nú 130. „Þessar aðgerðir njóta forgangs.“

Skurðstofurnar fylgja hefðbundinni sumaráætlun þetta sumar sem önnur Aðeins hluti skurðstofa spítalans séu opnar og þau sinni mest bráðaþjónustu. „Vissulega munar um það að frá júnílokum fram til 10. ágúst erum við með skerta starfsemi. Þetta sumarið er þó heldur minna lokað en undanfarin ár. Með annarri bylgju COVID-19 þyrftum við að halda þessari skertu starfsemi áfram inn í haustið.“ Það hefði áhrif á biðlista, þeir myndu lengjast. 

Vigdís segist sátt við stöðuna, þ.e. hversu vel hafi gengið að halda í horfinu þótt staðan sé þannig að grípa þurfi til aðgerða. „Auðvitað viljum við koma biðtímanum niður. Við viljum gera betur og getum það.“ - gag

Mynd/Læknablaðið