„Þessi reglu­gerðardrög ráðherra komu okk­ur á óvart“

„Þessi reglu­gerðardrög ráðherra komu okk­ur á óvart og geta varla tal­ist gott inn­legg í stöðuna, enda eru samn­ingaviðræður milli Lækna­fé­lags Reykja­vík­ur og Sjúkra­trygg­inga Íslands nýhafn­ar aft­ur eft­ir nærri árs hlé að frum­kvæði ráðherra og eru á viðkvæmu stigi. En þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem hug­ur virðist ekki fylgja máli hjá rík­inu í þess­um viðræðum,“ segir Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur við á forsíðu Morgunblaðsins nú í morgun.

Heilbrigðisráðherra hefur birti á dögunum drög að breytingu á reglugerð nr. 1255/2018 um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands. Drögin má sjá á Samráðsgáttinni sem nálgast má hér. Umsagnafrestur um reglugerðina nær til 23.04.2021.

Í ágripi ráðuneytisins með drögunum segir: „Í reglugerð nr. 1350/2020 um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu hefur ráðherra sett fram það hámark sem sjúkratryggður skuli greiða fyrir heilbrigðisþjónustu á tilteknu tímabili. Þetta er mikilvægur liður í því að tryggja öllum sem greiðastan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Aftur á móti hafa sjálfstætt starfandi sérgreinalæknar í sumum tilvikum sett gjaldskrár til hliðar við opinbera kerfið sem veldur því að sjúklingar þurfa að greiða tvo reikninga þegar þeir sækja þjónustu sérgreinalækna. Annan þeirra fá þeir endurgreiddan í hlutfalli við heildarútgjöld sín til heilbrigðisþjónustu. Hinn reikninginn þurfa þeir að greiða að fullu til sérgreinalæknisins, sjúklingar fá þann kostnað ekki endurgreiddan og hann reiknast ekki til afsláttar af heildarútgjöldum sjúklingsins. Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki upplýsingar um umfang þessara gjalda og þau standa fyrir þrifum því kerfi sem sett hefur verið upp af hinu opinbera með hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi.“

Ráðherra ætli með breytingunum að tryggja að reglugerðin taki ekki til þeirra sérfræðilækna sem setji þessi aukagjöld á: „Þá fyrirhugar heilbrigðisráðherra enn fremur að setja skilyrði um skil sérgreinalækna á ársreikningi vegna rekstursins ef þeir hyggjast hafa milligöngu um endurgreiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands sem og að læknum verði skylt að skila í samskiptaskrá sjálfstætt starfandi sérfræðinga, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu, þeim upplýsingum sem nauðsynlegt er fyrir landlækni vegna eftirlits með þjónustunni.“

Þórarinn segir í Morgunblaðinu og á mbl.is: „Nú virðast heil­brigðis­yf­ir­völd ætla að beita sjúk­ling­um fyr­ir sig og svipta fjölda þeirra sjúkra­trygg­inga­rétt­in­um verði þessi drög að veru­leika. Það er auðvitað á ábyrgð ráðherr­ans og rík­is­stjórn­ar verði það niðurstaðan og er al­farið þeirra ákvörðun og alls ekki á ábyrgð lækna,“ seg­ir Þór­ar­inn sem kveðst við fyrstu sýn telja að laga­stoðin und­ir reglu­gerðardrög­un­um sé mjög hæp­in.

Lestu drögin að reglugerðinni hér.

Lestu fréttina á mbl.is hér.