Styrkja þarf rannsóknardeildir Landspítala áður en sá nýi rís

Það varð lands­mönn­um til happs hversu vel Íslensk erfðagreining brást við þegar tækjabúnaður veirudeildar Landspítala brást. Þetta kemur fram í grein eftir Önnu Margréti Halldórsdóttur, lækn­i í Blóðbank­an­um og starf­andi formann lækn­aráðs Land­spít­ala, í Morgunblaðinu í dag.

Anna bendir á nauðsyn­ þess að ráðast í úr­bæt­ur á veiru­fræðideild­inni. COVID-19-far­ald­ur­inn sýn­i skýrt mik­il­vægi klínískra rannsóknadeilda. Án þeirra get­i há­skóla­sjúkra­hús ekki sinnt þjón­ustu við sjúk­linga. „Það eru því miður a.m.k. fimm ár þangað til nýr Land­spít­ali verður tek­inn í notk­un svo huga þarf að tíma­bundn­um lausn­um.“ Hún segir einnig að huga verði að því að mennta sér­hæft starfs­fólk til að vinna á deildunum.

Greinin hljóðar svo:

Styrkja þarf rannsóknardeildir Landspítala: Lærdómur af COVID-19

„COVID-19 fór eins og hvirfil­byl­ur yfir heim­inn á fyrri hluta árs­ins og enn sér ekki fyr­ir end­ann á far­aldr­in­um. SARS-Cov-19-veir­an varð miðpunkt­ur at­hygli og frétt­ir af far­alds­fræði urðu fast­ur liður í fjöl­miðlum. Eins og kunn­ugt er þurfti heil­brigðisþjón­ust­an með Land­spít­al­ann í broddi fylk­ing­ar að bregðast skjótt við til að geta sinnt smituðum ein­stak­ling­um, sum­um bráðveik­um. 

COVID-19-göngu­deild­in var stofnuð, gjör­gæsl­an efld, legu­deild­um breytt o.s.frv. Ein deild spít­al­ans sem sér­stak­lega mikið mæddi á var sýkla- og veiru­fræðideild­in en starfs­fólk henn­ar sýndi bæði snar­ræði og út­hald við að þróa ný grein­ingar­próf og vinna langa daga við grein­ingu sýna. Þetta var krefj­andi verk­efni fyr­ir deild sem hef­ur lengi búið við þröng­an kost hvað varðar tækja­búnað og mönn­un en sam­kvæmt Arth­uri Löve yf­ir­lækni veiru­fræðideild­ar voru tæk­in orðin „ göm­ul, þreytt og bilana­gjörn og það var fljótt ljóst að það yrði flösku­háls­inn “. Vegna tækja­bil­ana var leitað til Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar (ÍE) sem gat komið til hjálp­ar enda vel búin með tækja­búnað og þjálfað starfs­fólk. Það er ekki gefið að geta leitað til fyr­ir­tæk­is á borð við ÍE en það varð lands­mönn­um til happs hversu vel ÍE brást við. Í skýrslu verk­efn­is­stjórn­ar um sýna­töku fyr­ir COVID-19 á landa­mær­um kom fram að nauðsyn­legt væri að ráðast í úr­bæt­ur á veiru­fræðideild­inni enda væri nú­ver­andi af­kasta­geta deild­ar­inn­ar, tækja­kost­ur, aðstaða og mönn­un veik­leiki í sótt­vörn­um og al­manna­vörn­um lands­ins með til­liti til nýrr­ar bylgju COVID-19 eða far­aldra annarra smit­sjúk­dóma.

Þessi at­b­urðarás sýn­ir fram á mik­il­vægi klín­ískra rann­sókn­ar­deilda Land­spít­al­ans enda eru þetta yf­ir­leitt einu sér­hæfðu rann­sókn­ar­deild­irn­ar á sínu sviði á Íslandi. Rann­sókn­ar­deild­irn­ar sem í nú­gild­andi skipu­riti spít­al­ans til­heyra svo­kölluðum rann­sókn­ar­kjarna eru auk sýkla- og veiru­fræðideild­ar eft­ir­far­andi: Klín­ísk líf­efna­fræði og blóðmeina­fræði, erfða- og sam­einda­lækn­is­fræði, ónæm­is­fræði og vefja­meina­fræði auk Blóðbanka og mynd­grein­ing­ar­deild­ar. Rann­sókn­ar­deild­irn­ar eru yf­ir­leitt ekki áber­andi út á við í starf­semi spít­al­ans. COVID-19-far­ald­ur­inn sýn­ir þó skýrt hversu mik­il­væg þessi starf­semi er en án henn­ar get­ur há­skóla­sjúkra­hús ekki sinnt þjón­ustu við sjúk­linga. Klín­ísk­ar rann­sókn­ar­stof­ur gera hvers kyns grein­ingar­próf á sjúk­linga­sýn­um sem gefa nauðsyn­leg­ar upp­lýs­ing­ar fyr­ir grein­ingu, meðhöndl­un og for­varn­ir sjúk­dóma. Til þess að geta sinnt hlut­verki sínu þurfa rann­sókn­ar­deild­ir að búa yfir þrennu: Góðu hús­næði, næg­um tækja­búnaði og vel þjálfuðu starfs­fólki. Fram kom í áhættumati far­sótt­ar­nefnd­ar Land­spít­ala og heild­armati Land­spít­ala frá Páli Matth­ías­syni for­stjóra spít­al­ans fyr­ir skýrslu um sýna­töku fyr­ir COVID-19 á landa­mær­um að styrkja þyrfti innviði Land­spít­ala og þá sér­stak­lega aðstöðu, tækja­kost og mönn­un veiru­fræðihluta sýkla- og veiru­fræðideild­ar Land­spít­ala, enda væri af­kasta­geta deild­ar­inn­ar hvað varðar PCR-grein­ing­ar tak­mörkuð. Þetta mat má vænt­an­lega yf­ir­færa á aðrar rann­sókn­ar­deild­ir spít­al­ans.

Hús­næðismál rann­sókn­ar­deilda Land­spít­al­ans eru sér­stak­lega bág­bor­in enda eru deild­irn­ar dreifðar á marg­ar bygg­ing­ar með til­heyr­andi óhagræði. Sum­ar þess­ara bygg­inga eru í slæmu ástandi og þarfn­ast kostnaðarsamra end­ur­bóta, til að mynda hús­næði veiru­fræðideild­ar í Ármúla. Þetta stend­ur til bóta með nýj­um Land­spít­ala þar sem all­ar rann­sókn­ar­deild­irn­ar munu sam­ein­ast í sér­stöku hús­næði rann­sókn­ar­kjarn­ans. Það eru því miður a.m.k. fimm ár þangað til nýr Land­spít­ali verður tek­inn í notk­un svo huga þarf að tíma­bundn­um lausn­um. Annað atriðið er tækja­búnaður en vegna örr­ar þró­un­ar og auk­inn­ar þekk­ing­ar er sí­felld þörf á end­ur­nýj­un tækja. Einnig má nefna að op­in­ber­ar regl­ur um inn­kaup krefjast þess að dýr­ari tæki fari í útboð með til­heyr­andi vinnu og um­sýslu. Tækja­mál eru ekki aðeins ófull­nægj­andi á veiru­fræðideild­inni held­ur er staðan svipuð á ýms­um öðrum rann­sókn­ar­deild­um. Hús­næðismál tor­velda sam­nýt­ingu tækja milli deilda en nauðsyn­legt er að all­ar deild­ir séu vel tækj­um bún­ar til þess að eðli­leg fag­leg framþróun geti átt sér stað á hverju sviði. Síðast en ekki síst má nefna mönn­un rann­sókn­ar­deilda en til þess að tryggja nægi­lega fag­lega sérþekk­ingu þarf til­tek­inn fjölda vel menntaðs starfs­fólks, þar á meðal lækna, líf­einda­fræðinga og annarra stétta. Mik­il­vægt er að stöðugt sé hugað að nægi­legri mönn­un enda er meðal­ald­ur margra stétta á rann­sókn­ar­stof­um nú í hærra lagi. Lang­an tíma tek­ur að mennta sér­hæft starfs­fólk á hverju sviði, til að mynda lækna.

Klín­ísk­ar rann­sókn­ar­stof­ur eru ómiss­andi hlekk­ur í keðju heil­brigðisþjón­ust­unn­ar og eng­in keðja er sterk­ari en veik­asti hlekk­ur­inn. Rann­sókn­ar­deild­ir Land­spít­ala hafa all­ar for­send­ur til þess að sinna verk­efn­um framtíðar­inn­ar, hvort sem er vegna COVID-19 eða annarra áskor­ana. Til að svo verði þarf hins veg­ar að ráðast í nauðsyn­leg­ar úr­bæt­ur hvað varðar hús­næði, tækja­kost og mannafla.

Heim­ild­ir.