Stór orð og skrýtið innlegg í viðkvæmar samningaviðræður

„Sjúkratryggingar Íslands halla réttu máli þegar þær lýsa því yfir að greiðslur ríkisins til sérgreinalækna hafi fylgt verðlagsþróun síðan samningar runnu út í lok árs 2018. Þar er líka langt gengið þegar sagt er að yfirlýsingar formanns Læknafélags Reykjavíkur um hið gagnstæða standist ekki skoðun. Þessar staðhæfingar orka báðar tvímælis svo ekki sé fastar að orði kveðið. Á sama tíma hótar heilbrigðisráðherra sjúklingum því að taka af þeim lögbundnar sjúkratryggingar ef þeir leita til sérfræðilækna sem þóknast ekki stjórnvöldum. Tímasetning þessara og fleiri stóryrða vekur athygli og eykur væntanlega fæstum bjartsýni um að þær samningaviðræður sem í gangi eru á milli LR og SÍ verði árangursríkar.

Það er óásættanlegt að þessir samningar skuli hafa verið lausir í meira en tvö ár. Á þeim tíma hafa stofulæknar tekið á móti yfir milljón heimsóknum við mismunandi erfiðar aðstæður vegna samningsleysis, ýmissa afleiðinga Covid, veikingar krónunnar með tilheyrandi kostnaðarhækkunum, aukinna krafna um samþættingu skráningarkerfa, styttingar vinnuvikunnar o.fl. Langt er í frá að einhliða breytingar SÍ á gjaldskrá hafi fylgt þessari þróun. Í raun hafa SÍ gert minnstu hugsanlegar lagfæringar í takti við almenna verðbótaþætti fjárlaga og var það síðast gert fyrir tæplega 16 mánuðum. Síðan hefur ekkert gerst.

Sú 15% leiðrétting sem varð á samningnum umfram verðlag árið 2014 var vegna þess að árið 2009 gáfu læknar eftir 9,2% umsamda hækkun vegna fjármálahrunsins. Flestir landsmenn gáfu eftir launakjör á svipaðan hátt en fengu slíka lækkun bætta mun fyrr.

Í sumum sérgreinum stenst stofurekstur ekki lengur samanburð við kjör lækna í öðru rekstrarumhverfi og erfitt er að halda honum áfram á óbreyttum forsendum. Þess vegna hafa sumir stofulækna gripið til þess ráðs að hækka gjaldskrá sína á meðan ekki takast samningar við SÍ um eðlilegar breytingar.

Heilbrigðisráðherra hefur kvartað yfir því að hafa engar upplýsingar um þessar verðhækkanir. Það er væntanlega rétt enda hafa Sjúkratryggingar Íslands beðist undan því að breytt gjaldtaka sé sett á reikninga sem berast þeim frá stofulæknum. Ástæðan: Ekki eru til fjármunir hjá SÍ til þess að uppfæra tölvukerfi sín þannig að haldið sé utan um umfang hækkana.

Til upplýsingar skal þess getið að verðhækkanir hjá stofulæknum í formi komugjalda hafa verið mismunandi. Í sumum sérfræðigreinum eru þær engar og í flestum tilfellum eru komugjöldin afar hófleg; 1.500 -2.200 krónur. Í stöku tilfellum hafa nýjar gjaldskrár verið teknar upp svo unnt sé að veita sjúklingum þjónustu í samræmi við nýjustu tækni og þekkingu. Gjaldskrá SÍ er löngu úrelt og í hana vantar fjölda af þjónustuliðum.

Stofulæknar eru fúsir til þess að ganga til samninga við Sjúkratryggingar Íslands á heilbrigðum forsendum. Margt bendir til þess að af hálfu ríkisvaldsins sé áhuginn takmarkaðri. Árangur viðræðna síðastliðin tvö og hálft ár hefur verið sáralítill og verður læknum ekki kennt um það. Samningsmarkmið SÍ hafa verið óljós, ekkert tilboð hefur komið fram og SÍ hafa ekki getað tiltekið hvaða þjónustu (þjónustuliði og eftir atvikum magn) þær vilji semja um. Fyrir u.þ.b. mánuði síðan kallaði heilbrigðisráðherra fulltrúa SÍ og stofulækna á fund. Á honum hvatti ráðherra aðila til að semja og höfðaði til ábyrgðarkenndar þeirra. Síðan hafa tveir samningafundir SÍ og LR verið haldnir og sá þriðji verið ákveðinn í næstu viku. Tímasetningin á yfirlýsingu SÍ í gær er undarleg í því ljósi. Vonandi er að landsmenn, sem greiða umtalsverðar fjárhæðir í sameiginlegan sjúkratryggingasjóð, verði ekki fyrir óþægindum vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin og ekki sér fyrir endann á.“

Ályktun stjórnar Læknafélags Reykjavíkur

Reykjavík 16. apríl 2021