Stofurekstur í mótvindi

„Meðalaldur lækna á stofu er tæp 60 ár og hefur hækkað um næstum 1 ár á hverju ári. Fyrir 5-7 árum var hann 55 ár,“ segir Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur. Hann telur að stefna ríkisins í samningum við sérfræðilækna skýri þessa þróun að hluta. Óvissa vegna samningsleysis við SÍ og óljósra fyrirætlana ríkisins þar fæli frá stofurekstri. Samningsleysið sé þar að auki skýrt lögbrot.

Þórarinn er hugsi yfir skorti á nýliðun í stéttinni og bendir á að athyglisvert sé að aðeins 27% stofulækna séu konur þrátt fyrir að þær séu 43% læknastéttarinnar í heild. „Ég hef ekki svarið við ástæðum þess en hef mínar grunsemdir,“ segir hann og nefnir að auk ótryggs rekstrargrundvallar sé stofurekstur ef til vill ekki fjölskylduvænn og tryggi læknum sem þar starfa ekki ýmis réttindi til að mynda kring um barneignir.

„Það þarf að skoða ástæðurnar og breyta þessu. Staðan hlýtur að vera ríkinu og Sjúkratryggingum Íslands umhugsunarefni ef ekki er verið að bjóða konum starfsaðstæður sem hvetja þær til að stunda stofurekstur.“

Í könnun Læknafélags Reykjavíkur sem gerð var nú í október kom fram að yfir 90% lækna treystu LR til að fara með samningsumboð gagnvart SÍ í samráði við sérgreinarnar tuttugu og fjórar. Flestir vilja starfa á svipuðum nótum og hingað til með einhvers konar samnigi við SÍ eins og síðustu áratugi eða 80%. Alls viljá þó 15% starfa alfarið utan samnings. „Þeim hefur fjölgað um 1% frá síðustu könnun sem var gerð 2018,“ segir Þórarinn. Aðeins 5% nefna aðra kosti.

„Okkur fannst tími til kominn að spyrja félagsmenn aftur um hvað þeim fyndist og hvort eitthvað hefði breyst,“ segir hann. Alls tóku 85% stofulækna þátt í könnuninni. Þórarinn segir að nú verði farið ítarlega yfir niðurstöður hennar. „Þetta er vegvísir um hvert félagið á að stefna í hagsmunamálum stofulækna eða stefnumótunin okkar.“

Félagið hélt aðalfund sinn föstudaginn 25. september. Þótt þar hafi árið 2019 verið gert upp er ekki ofsögum sagt að þetta ár sem nú er að líða sé læknunum ofar í huga. Kófið hafi verið þeim sem reka læknastofur erfitt á köflum einkum á 6 vikna tímabili í vor og nú stefni aftur í ákveðnar lokanir á starfseminni. Ábyrgðin og skuldbindingar t.d. á húsnæðisskostnaði og öðrum föstum kostnaði, svo sem launum 300 starfsmanna sem eru í vinnu á læknastöðvunum, hafi ekki horfið þótt þjónustan hafi gert það.

„Stofurekstur er í mótvindi núna,“ segir hann. Staðan vegna kórónuveirufaraldursins auk hindrana á nýliðun og samningsleysið við Sjúkratryggingar Ísland veiki þjónustuna. Það sjáist skýrt á meðalaldrinum og nýliðuninni eins og rakið var að ofan. Staðan fæli ekki aðeins lækna hér á landi frá heldur einnig marga lækna sem vilji eða íhugi að flytja heim erlendis frá.

„Fólk flytur ekki úr góðum störfum í útlöndum til að fara í óöryggið hér heima, við heyrum oft slíkar raddir,“ segir Þórarinn sem hvetur stjórnvöld til að breyta um stefnu.

Þrír varamenn bættust við stjórn Læknafélags Reykjavíkur á aðalfundinum. Alma Gunnarsdóttir, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir og Ragnar Freyr Ingvarsson. Í stjórninni sitja nú: Þórarinn Guðnason, formaður. Guðmundur Örn Guðmundsson, varaformaður. Magnús Baldvinsson gjaldkeri. Tryggvi Helgason ritari og Anna Björnsdóttir meðstjórnandi. Alma og Þórarinn eru fulltrúar Læknafélags Reykjavíkur í stjórn Læknafélags Íslands og Helga Ágústa er varamaður þar.

„Mikill stuðningur er við það sem við höfum verið að gera. Það sýnir hin nýgerða könnun vel. Það er góður samhljómur og samstaða í hópnum,“ segir Þórarinn að lokum.